Kjaramál flugvirkja

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 13:19:03 (0)


138. löggjafarþing — 95. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[13:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um kjaramál flugvirkja. Með frumvarpinu er lagt bann við verkfalli sem hófst í fyrrinótt og kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila. Eins og Alþingi er kunnugt hafa samningaviðræður í kjaradeilu flugvirkja og Icelandairs hf. staðið um nokkurt skeið og nú síðast með aðkomu ríkissáttasemjara. Þetta er í annað sinn á einum mánuði sem verkfall félagsmanna hjá Flugvirkjafélagi Íslands truflar samgöngur en í síðasta mánuði stóð verkfall félagsins aðeins í um átta klukkustundir áður en samningar tókust milli viðsemjenda. Þeir samningar voru síðan felldir í atkvæðagreiðslu félagsmanna Flugvirkjafélags Íslands.

Þessi seinni lota samningaviðræðna hefur því miður ekki skilað árangri með nýjum kjarasamningi. Flugvirkjafélagið hóf boðað ótímabundið verkfall í fyrrinótt til að fylgja eftir kröfum sínum. Flugvirkjar hafa staðið fast á kröfum sínum um verulega hækkun launa sem eru úr öllum takti við launaþróun í landinu og samninga á almennum vinnumarkaði, að ekki sé nú talað um opinbera geirann. Félaginu hafa verið boðnar sambærilegar eða meiri kjarabætur en samið hefur verið um við aðra launahópa.

Við upplifum nú hæsta hlutfall atvinnulausra í áratugi og stórir hópar í samfélaginu hafa mátt þola launalækkanir og/eða annars konar kjaraskerðingu. Staða flugvirkja er óvenjuleg að því leyti að ekkert atvinnuleysi er innan stéttarinnar og verkefnastaða góð svo fremi sem verkfallið hafi ekki neikvæð áhrif á hana. Það er ljóst að viðhaldsverkefni hafa nú þegar tapast úr landi vegna kjaradeilunnar og hætta er á að frekari verkefni tapist ef ekkert verður að gert. Þetta gerist á sama tíma og rekstrarumhverfi fyrirtækja er almennt mjög erfitt. Þau eiga undir högg að sækja og fjöldi starfa hefur tapast eða er í hættu.

Verkfall flugvirkja hefur og mun hafa í för með sér verulega röskun flugs bæði til og frá landinu, enda er Icelandair langstærsti flugrekandi landsins og burðarás fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna flytur félagið u.þ.b. 5.000 farþega á dag, þ.e. um 35.000 farþega á viku. Verkfallið mun valda íslensku efnahagslífi verulegu tjóni þegar síst skyldi og raska starfi þúsunda einstaklinga og fyrirtækja um allt land sem byggja starfsemi sína á ferðaþjónustu og öruggum flugsamgöngum á tíma þegar rekstrarumhverfi allra fyrirtækja í landinu er mjög viðkvæmt. Einnig mun það hafa mikla röskun í för með sér fyrir almenna flugfarþega.

Virðulegi forseti. Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum náðu aðilar á almenna vinnumarkaðnum samkomulagi um að framlengja kjarasamninga til loka nóvember 2010. Með þessu frumvarpi er lagt til að svo verði gert. Með frumvarpinu er ekki verið að grípa inn í það samkomulag enda hefur frumvarpið ekki bein áhrif á innihald kjarasamnings eða kollvarpar með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á. Með frumvarpinu er frekar verið að treysta forsendur stöðugleikans með friði. Samningaviðræður sigldu í strand í gærkvöldi og brýnt er að bregðast við til að forða tjóni og neikvæðum áhrifum kjaradeilunnar á efnahagslíf þjóðarinnar.

Atburðir helgarinnar, þ.e. eldgos í Eyjafjallajökli, renna enn styrkari stoðum undir nauðsyn þess að fullar samgöngur séu tryggðar til og frá landinu.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta frumvarp og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar þingsins.