Kjaramál flugvirkja

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 16:36:01 (0)


138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að það er mjög óheppilegt þegar við förum svona hratt með málin í gegnum þingið. Það koma upp ákveðnir vankantar eins og hv. þingmaður benti á. Kannski er ekki nógu mikill tími til að vinna hlutina betur þó að það hafi að mínu mati ekki grundvallaráhrif í þessu máli.

Tillaga framsóknarmanna gengur út á það sem Guðmundur Steingrímsson talaði fyrir áðan, að skipaður yrði gerðardómur þar sem einn væri frá hvorum aðila og síðan fulltrúi frá ríkissáttasemjara. Svo ég svari þeirri spurningu sem til mín var beint lít ég svo á að í ljósi þess sem okkur var sagt á fundi samgöngunefndar áðan að þetta útspil hafi komið frá ríkissáttasemjara til að reyna að ná deilendum í land. Auðvitað hefði verið best, og allir sammála um það, ef menn hefðu náð að semja sig frá þessu. Við megum heldur ekki gleyma því að þótt það sé mjög sárt og erfitt að fara inn í það ástand að taka verkfallsréttinn af fólki eru aðstæðurnar þannig í þjóðfélaginu að maður getur ekki sett þetta í samhengi við neitt sem við höfum áður upplifað. Það eru mjög miklir hagsmunir í húfi, eins og kemur fram í nefndarálitinu er um þúsundir manna að tefla og eins útflutninginn.

Með þessum gjörningi þar sem þessu er frestað um hálft ár hef ég a.m.k. samvisku til og tel réttlætanlegt að styðja málið.