Kjaramál flugvirkja

Mánudaginn 22. mars 2010, kl. 16:37:49 (0)


138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt svar. Ég verð samt að segja og taka það fram að við erum sammála um að það þurfi að haska sér í þessu mikilvæga máli og taka ákvörðun fljótt og örugglega. Ég vil þó leggja áherslu á orðið örugglega. Við stöndum frammi fyrir því að önnur leið er fær, hún er komin fram, hún er mildari, vegur ekki eins harkalega að hinum helga verkfallsrétti eins og ég kom inn á áðan en nær sömu markmiðum.

Ég túlka orð hv. þingmanns þannig að honum þætti eins og sú leið væri fullreynd. Ég held að það sé ofmælt og ef Alþingi mundi skikka aðila til að fara hana gætum við verið komin með leið sem að mínu viti væri mildari og kannski til þess fallin að ná fram breiðari sátt um þetta mikilvæga mál.

Þetta eru erfiðar ákvarðanir, hæstv. forseti. Við framsóknarmenn erum að meginstefnu sammála því að það þurfi að fara í þessa aðgerð, en við hefðum viljað gera það með öðru sniði.