Landflutningalög

Þriðjudaginn 23. mars 2010, kl. 14:19:29 (0)


138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

landflutningalög.

58. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. minni hluta samgn. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til landflutningalaga. Í upphafi máls míns vil ég segja að það er ekki mikill pólitískur ágreiningur um málið. Þó eru þrjú atriði sem við í minni hlutanum gerum athugasemdir við, sérstaklega eitt þeirra. Að minnihlutaálitinu stendur ásamt mér hv. þm. Árni Johnsen.

Minni hlutinn fagnar því að löggjöf um landflutninga sé löguð að því rekstrarumhverfi sem greinin býr við og breytingum sem orðið hafa á þessu sviði og gerir því ekki athugasemdir við megininntak frumvarpsins. Minni hlutinn vekur athygli á atriðum sem komu fram í umsögnum hagsmunaaðila um málið og taka hefði mátt til endurskoðunar við vinnslu frumvarpsins í nefndinni. Í ljósi athugasemda þeirra leggur minni hlutinn til að breytingar verði gerðar á frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi telur minni hlutinn rétt að vekja athygli á nauðsyn þess að orðið „vara“ sé skilgreint þannig að forðast megi misskilning. Mat minni hlutans er að óljóst sé hvað telst til vöru í skilningi frumvarpsins sem getur valdið óþarfaóvissu.

Við fengum ábendingar um þetta, virðulegi forseti, í umsögnum frá aðilum þar sem vakin var athygli á því að orðið „vara“ er ekki skilgreint og það geti þýtt það að ef menn eru að keyra úr húsgrunnum, moka upp úr húsgrunnum, þurfi þeir í raun og veru að gefa út fylgibréf fyrir því og eins ef þeir keyra inn í grunninn aftur til baka. Þetta er kannski lítið mál en eigi að síður væri mjög mikilvægt og skynsamlegt að þetta lægi algjörlega ljóst fyrir. Það kom reyndar fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan að meiri hlutinn tæki undir það að skilgreina þyrfti þetta nánar. Hann vísaði til þess að verið væri að leggja fram ný umferðarlög og þar kæmi þetta hugsanlega fram. Ég fór tiltölulega fljótt yfir það en sá það ekki þar. Þetta er því góðfúsleg ábending um það sem menn gætu rætt frekar milli 2. og 3. umr.

Í öðru lagi telur minni hlutinn að ákvæði 27. gr. frumvarpsins sem kveður á um þann frest sem móttakandi hefur til að veita vöru viðtöku sé ósanngjarnt þar sem tímamörk eru allt of þröng og gefa móttakandanum ekki nægjanlegt svigrúm. Lagt er til í frumvarpinu að það séu einungis þrír dagar sem móttakandi vöru hefur til þess að taka við vörunni án þess að hún fari til baka eða flutningsaðili leggi hald á hana. Okkur sem stöndum að minnihlutaálitinu finnst þetta vera of skammur tími, þrír dagar. Við getum sett það í samhengi við það að menn fái vörur á föstudegi eða fimmtudegi og viðkomandi aðili væri ekki heima, þá gæti hann ekki náð í vöruna á mánudeginum vegna þess að fresturinn væri útrunninn. Nú er ég ekki að segja að það gerist oft en það er samt í lagafrumvarpinu ákvæði þess efnis, flutningsaðili getur lagt hald á vöruna af því að þessir þrír dagar eru liðnir. Það er það sem stendur í lagafrumvarpinu.

Í einni umsögninni kom tillaga um 30 daga en við erum öllu hógværari og gerum tillögu um að þetta verði lengt upp í sjö daga, þ.e. menn hefðu eina viku til að ná í vöru sína á flutningamiðstöðina svo að hún yrði ekki send til baka ef menn lentu í einhverju óþarfaveseni. Því verður að halda til haga og er líka hugsunin á bak við þetta að flutningsaðilarnir séu ekki með vöruskemmur fyrir þá sem eru að fá til sín vörur, en þrír dagar eru allt of skammur tími að okkar mati og eðlilegra væri að hafa sjö daga, þ.e. eina viku. Við væntum þess að þetta verði skoðað að sjálfsögðu líka á milli 2. og 3. umr.

Við leggjum til, virðulegi forseti, að 3. og 4. mgr. 27. gr., sem hv. þm. Björn Valur Gíslason fór aðeins yfir áðan, verði felldar brott. Fram komu þau sjónarmið hjá umsagnaraðilum að verði þessi ákvæði að lögum geti það valdið miklum erfiðleikum í flutningum og starfsemi flytjenda. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og vekur athygli á því að verði umrædd ákvæði að lögum felur það í sér að skráður móttakandi geti móttekið vörur án þess að hann sé skuldbundinn til þess að greiða flutningsgjald eða annan áfallinn kostnað hjá flytjanda. Um er að ræða verulega íþyngjandi ákvæði og minni hlutinn telur auk þess fráleitt að flytjandi sem er ekki aðili að samningi sendanda og móttakanda líði fyrir samskipti þeirra og hugsanlegar deilur.

Til að setja þetta í örlítið samhengi, virðulegur forseti, þá eru heimildarákvæði í 3. og 4. mgr. sem gera það að verkum að móttakandi vöru getur tekið við vörunni án þess að skuldbinda sig til að greiða hana. Allir vita að þegar flutningsaðilar flytja vörur fyrir fyrirtæki og einstaklinga, menn eru kannski að flytja matvæli og annað, þá getur hugsanlega einhver starfsmaður í viðkomandi verslun eða fyrirtæki tekið á móti vörunum og flutningsfyrirtækið afhendi þar með vörurnar. En eftir sæti það að móttakandinn, þó að hann hafi tekið á móti vörunum, er ekki skyldugur til að greiða fyrir kostnaðinn vegna heimildarákvæða í 3. og 4. mgr. Þetta er að okkar mati algjörlega óviðunandi vegna þess að það er mjög óeðlilegt að móttakandi vöru geti tekið við vörunni án þess að skuldbinda sig til að greiða fyrir flutninginn fyrir vöruna. Ef það kemur upp hefur flytjandinn í raun og veru ekki nein tök til að innheimta skuldina fyrir flutninginn vegna þess að varan er farin og þar af leiðandi haldsrétturinn. Þetta er því mjög sérkennilegt ákvæði og olli okkur í nefndinni miklum vonbrigðum, að menn skyldu ekki ræða þetta frekar eða taka meira tillit til þess. Og ástæðan fyrir því er sú, virðulegur forseti, að kaupandi og sendandi gera með sér ákveðið samkomulag um að sá sem kaupir vöruna semur við ákveðið flutningsfyrirtæki. Síðan flytur sá sem selur vöruna hana með öðru flutningsfyrirtæki, kannski á hærri taxta, og þá er hugsunin sú að móttakandinn geti bannað að greiða fyrir þann flutning en jafnframt móttekið vöruna. Það eru í raun og veru engin haldbær rök að mínu mati í þessu ákvæði. Það væri mun skynsamlegra að menn hefðu þetta þannig að ef maður móttekur vöruna er maður búinn að viðurkenna það að ætla að greiða fyrir flutninginn á vörunni. Það eru bara eins og maður segir eðlileg vinnubrögð.

Síðan er þetta líka þannig að þegar menn gera samning, fyrirtæki gera samning sín á milli, móttakandi og sendandi, þ.e. fyrirtækið sem selur vöru og fyrirtæki sem kaupir vöru, þá er flutningsaðilinn sem slíkur ekki aðili að þeim samningi. Það er samningur sem er fyrir utan verksvið hans. Sá sem flytur vörur þarf að vera tryggur með það að ef einhver móttekur vöru skuldbindur sá hinn sami sig sannarlega til þess að greiða fyrir vöruna.

Þetta er það ákvæði sem við gerum helstar athugasemdir við. Okkur finnst mjög sérkennilegt að þetta skuli vera áfram í frumvarpinu. Ég vænti þess eins og ég sagði áðan að tekið verði tillit til þess milli 2. og 3. umr. í nefndinni og þetta verði skoðað ítarlega og menn athugi þetta vegna þess að einnig er á það bent í umsögnum um frumvarpið að þetta stangast hugsanlega á við samningalög. Það er því margt sem þarf að skoða.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er ekki stór pólitískur ágreiningur um frumvarpið en það er aðallega þetta þrennt sem ég hef nefnt, þ.e. að skilgreina orðið „vöru“ frekar sem er kannski smáatriði en getur samt orðið stórt ef kemur upp einhver misskilningur. Í öðru lagi að afhendingartíminn yrði lengdur úr þremur dögum í sjö daga. En stærsta atriðið sem við gerum alvarlegustu athugasemdina við er að flutningsaðili sé settur í þá aðstöðu að þurfa að rukka fyrir flutning. Þó svo móttakandi hafi tekið við vöru geti hann eftir sem áður neitað að greiða fyrir reikninginn og flutningsaðili lendi þá í lögfræðideilum við móttakanda og sendanda vegna einhvers samkomulags sem þeir hafa gert en flutningsaðili hefur enga aðkomu að og hefur engin tök á að kynna sér.