Lagaskrifstofa Alþingis

Þriðjudaginn 23. mars 2010, kl. 16:50:36 (0)


138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

lagaskrifstofa Alþingis.

457. mál
[16:50]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lagaskrifstofu Alþingis. Ásamt mér eru flutningsmenn einnig hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þór Saari.

Tilgangurinn með frumvarpi þessu er fyrst og fremst sá að bæta lagasetningu. Það er skoðun mín síðan ég settist á Alþingi sem alþingismaður að styrkja þurfi Alþingi, bæði fjárhagslega og faglega. Ég ætla að fara yfir í stuttu máli hvert markmið frumvarpsins er, hvernig það er hugsað og hvað varð uppsprettan að því einnig að ég er 1. flutningsmaður frumvarpsins, en svipuð mál hafa komið fyrir þingið tvisvar áður og kem ég að því í máli mínu.

Ég sæki þetta til Norðurlandanna, og við flutningsmenn, en þar er liður í starfsemi ráðuneyta að starfrækja sérstakar lagaskrifstofur sem hafa það hlutverk að fara yfir stjórnarfrumvörp og kanna m.a. hvort á þeim séu lagatæknilegir ágallar eða hvort þau samrýmist yfir höfuð stjórnarskrá. Engin slík stofnun er hér á landi. Ekki er starfandi lagaráð á vegum Alþingis sem hefur þetta með höndum og ekki er heldur starfandi slíkt ráð hjá Stjórnarráðinu úti í ráðuneytunum.

Þetta á sér sögu, það frumvarp sem nú liggur fyrir, en í skýrslu sem gefin var út af forsætisráðuneytinu 1999 og ber heitið Starfsskilyrði stjórnvalda eru settar fram vangaveltur um þetta efni, hvort eigi að stofna hér lagaskrifstofu eða lagaráð. Þar kemur fram að ekki hafi verið farið ítarlega og skipulega yfir öll lagafrumvörp hér á landi og ekki kannað hvort á þeim væru lagatæknilegir ágallar áður en þau eru lögð fyrir Alþingi og samþykkt sem lög. Því skal engan undra að langtum fleiri hnökrar eru á íslenskri löggjöf en á Norðurlöndunum af því að þetta stjórnsýslustig vantar inn í löggjöf hér.

Engum vafa er undirorpið að sú skipan sem Alþingi býr við er algjörlega ófullnægjandi að þessu leyti. Þegar svo er komið fyrir lagasetningu skapast mikið álag á dómstóla landsins. Ég nefni líka að sjálfsögðu í frumvarpinu umboðsmann Alþingis því að vafamál í lagasetningu koma til kasta hans.

Á 116. löggjafarþingi lagði Páll Pétursson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fram þingsályktunartillögu um að sett yrði á stofn lagaráð um það efni sem finna má í frumvarpi þessu. Þar lagði sá ágæti þingmaður, sem síðar varð ráðherra Framsóknarflokksins, til að skylt yrði að leggja fyrir lagaráð öll stjórnarfrumvörp þar sem reyna kynni á ákvæði stjórnarskrár. Uppsprettan að þeirri þingsályktunartillögu var fyrst og fremst sú að EES-samningurinn lá þá fyrir þinginu og var mikið deilt um það á þeim tíma hvort EES-samningurinn mundi yfir höfuð standast stjórnarskrá.

Páll Pétursson náði sér í fróðleik erlendis þar sem hann studdist við skýrslu sem unnin var fyrir danska þingið og fjallaði hún um skýrslu sem danska þingið hafði þá látið taka saman um lögfræðilegt eftirlit og sérfræðiráðgjöf í ýmsum þjóðþingum Evrópuríkja, þar sem kom fram að í öllum þeim ríkjum sem skýrslan náði til er það skylda þingforseta að athuga hvort frumvörp séu í samræmi við stjórnarskrá áður en þau eru tekin á dagskrá þingsins. Páll Pétursson, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sýndi þarna strax árið 1992 mikla framsýni í að leggja þetta fyrir þingið, því að eins og ég kom inn á áðan er ekkert komið sambærilegt þessu á Íslandi. Má jafnvel segja að einhver hluti þess sem við stöndum frammi fyrir nú sem þjóð sé kannski vegna þess að hér hefur lagasetning verið fremur slök og oft og tíðum stangast á við stjórnarskrá og aðra sáttmála sem við erum bundin af. Jafnvel eru svo miklir formgallar hér á lögum að umboðsmaður Alþingis hefur á sínum 20 ára ferli fundið um 200 meinbugi á lögum. Er það allt frá saklausum prentvillum upp í það að rekast á lagagreinar í öðrum lögum og að það sé hreinlega mismunur á milli aðila sem gengur ekki upp í íslenskri löggjöf.

Páll Pétursson flutti þessa tillögu aftur tvisvar sinnum, á 117. og 118. löggjafarþingi, en málið hlaut ekki brautargengi á þeim þremur löggjafarþingum sem þingmaðurinn lagði það fram á. Svo gerðist það að málið var endurvakið á 126. löggjafarþingi og endurflutt á 127. löggjafarþingi og var málið þá í formi lagafrumvarps um lagaráð. Voru flutningsmenn þá Bryndís Hlöðversdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson. Í greinargerð með því frumvarpi voru færð fyrir því rök hvers vegna lagaráð ætti að heyra undir Alþingi en ekki Stjórnarráð Íslands með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir því að sú leið er farin hér að stofna lagaráð en ekki lagaskrifstofu við Stjórnarráð Íslands sem hefði sama hlutverk með höndum, er fyrst og fremst sú að með þessu fyrirkomulagi er verið að styrkja þátt Alþingis í lagasetningunni. Sú stjórnskipan sem við búum við og byggist á þrígreiningu ríkisvaldsins í löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald hefur réttilega verið gagnrýnd fyrir það hversu sterkt framkvæmdarvaldið hefur verið á kostnað hinna þáttanna tveggja og úr því þarf að bæta til þess að efla og bæta lýðræðið hér á landi.“

Þetta er það sem hefur svo oft komið fram í ræðum mínum á Alþingi undanfarið ár að framkvæmdarvaldið hefur orðið svo ofboðslega sterkt vægi hér og flest þau lagafrumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi koma beint úr Stjórnarráðinu. Við verðum á einhvern hátt að reyna að tempra framkvæmdarvaldið í því hve það hefur mikil tök hér og er þetta m.a. þáttur í því, eins og kemur fram í frumvarpi mínu, að lagaskrifstofan sé á vegum Alþingis en ekki Stjórnarráðsins. Það er mjög mikilvægt að hún sé á vegum Alþingis, því að eins og flestir vita er mjög löng hefð fyrir meirihlutastjórnum hér á landi, öfugt við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum þar sem mikil hefð er fyrir minnihlutastjórnum. Þar eru málin sett í þann farveg í upphafi með þessum lagaskrifstofum og lagaráðum að það sé sem mest sátt um málin, því að eðli málsins samkvæmt þar sem minnihlutastjórnir eru starfandi þurfa ríkisstjórnir að vinna málin í sátt við þingmeirihlutann sem er ekki í ríkisstjórn. Þetta væri eitthvað sem sú ríkisstjórn sem nú situr ætti að skoða, því að hér eru eins og málin standa núna öll mál keyrð í gegn í krafti meiri hlutans, á meirihlutavaldinu, algjörlega óháð því hvort málin eru í sátt við þjóðina eða ekki. Enda reyndi á synjunarvald forsetans þann 5. janúar einmitt vegna þess að þá var farið með mál eingöngu á meirihlutakrafti en ekki í þeirri sátt sem þarf að vera um þingmál á þinginu. Ég hef komið að því í mörgum ræðum um Icesave-málið að þau lög stæðust ekki stjórnarskrá, hvorki varðandi afsal dómstólanna né það að erlendir aðilar væru komnir með löggjafarvald hér á landi. Það mál t.d. hefði stoppað hjá lagaskrifstofu Alþingis sem lagt er til að stofnuð verði með þessu frumvarpi, því að það væri náttúrlega alveg rakið að Icesave-lögin stæðust ekki íslensk lög.

Ég hef farið yfir hlutverk umboðsmanns Alþingis og talað um og bent á hve mörg mál hafa komið til hans kasta vegna meinbuga í lagasetningu, þannig að ég ætla ekki að fara yfir það aftur.

Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að lagt sé til að stofnuð verði lagaskrifstofa á vegum Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Á liðnum árum hefur það nokkrum sinnum gerst að löggjafarvaldið hefur samþykkt lög sem ekki hafa verið nægilega ígrunduð og vönduð og sum hafa beinlínis gengið gegn stjórnarskránni og hafa aðra lagatæknilega ágalla. Við stöndum nú á rústum hugmyndafræði sem ekki gekk upp. Því er afar mikilvægt að efla traust á löggjafarvaldinu og Alþingi sjálfu, það er mjög mikilvægt í þeirri uppbyggingu sem er fram undan. Þetta frumvarp um lagaskrifstofu er einn þáttur í því, því að við framsóknarmenn horfum til framtíðar. Frumvörp sem verða að lögum á löggjafarþingi þjóða eiga að vera það vel unnin í upphafi að þau séu nánast óumdeilanleg. Slík lagasetning léttir álagið á eftirlitsstofnanir og dómstóla. Mikilvægt er að þessu sé til haga haldið hér, því að eftir að ég kom á þing hafa nánast öll mál sem eru mjög umdeilanleg komið frá ríkisstjórninni. Minna er talað um það þegar minni hlutinn á Alþingi styður ríkisstjórnina í góðum málum. Ríkisstjórnin og fylgismenn hennar eru duglegri við að benda á að hér sé mikil ósátt en það hefur aðeins verið ósátt um þau lög sem eru illa unnin og ganga gegn vilja þjóðarinnar. Til dæmis stóð minni hlutinn að tveimur mjög þörfum lagafrumvörpum með ríkisstjórninni í gær, það er minna um það talað því að aðilar úti í samfélaginu vilja meira benda á ósættið.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að á lagaskrifstofu skuli starfa fimm manns sem allir skuli vera lögfræðimenntaðir. Það er forsenda fyrir því og mikilvægt er að þeir aðilar sem veljast til starfa á þessa lagaskrifstofu hafi yfirgripsmikla þekkingu á lögum. Þar er lagt til að í það minnsta tveir af þessum fimm aðilum skuli vera lagaprófessorar. Lagt er til í 2. gr. að forseti Alþingis skipi einn lagaprófessor að tillögu forsætisnefndar Alþingis og skuli hann jafnframt vera í forsvari fyrir lagaskrifstofu. Tveir menn skulu skipaðir að tillögu lagadeildar Háskóla Íslands og skal annar þeirra vera prófessor í lögum. Tveir aðilar skulu vera skipaðir að tillögu Lögmannafélags Íslands.

Að mínu mati er hér á ferðinni mikið þjóðþrifamál sem til framtíðar felur í sér mikinn sparnað fyrir íslenska þjóð. Það er von mín að málið fái jákvæðar undirtektir hjá alþingismönnum og frumvarpið hljóti framgang og verði brátt að lögum frá Alþingi.

Virðulegi forseti. Að 1. umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.