Hjúkrunarrými á Ísafirði

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 10:42:26 (0)


138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

hjúkrunarrými á Ísafirði.

[10:42]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðan stuðning við þær áætlanir sem eru í farvegi um byggingu hjúkrunarheimila, sem er mjög mikilvægt framfaraskref á þessum tímum. Það er ekki rétt að Ísafjörður sé þar hvergi á blaði. Ísafjörður er á sama stað og hann var í þeirri áætlun sem gerð var í tíð þáverandi félagsmálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, þ.e. það sem við gerðum með ákvörðunum nú í haust um fjármögnun uppbyggingar hjúkrunarrýma var að hleypa af stað öllum fyrri hluta þeirrar framkvæmdaáætlunar sem staðið hafði fastur í tvö ár vegna þess að aldrei hafði fundist fjármagn. Það erum við að fjármagna núna með 100% lánum úr Íbúðalánasjóði. Ísafjörður var aldrei í fyrri hluta áætlananna. Þar er ástæðan fyrst og fremst sú að Ísafjörður sótti frekar seint um inn í þennan pakka. Við viljum allt gera til að greiða götu Ísafjarðar, það er alveg ljóst. Það sem við höfum sagt er að við munum núna fara yfir stöðuna, yfir vistunarþörfina, í ljósi þeirrar uppbyggingar sem nú er að fara af stað. Við vonumst til að endurmeta framkvæmdaáætlunina í því ljósi á þessu ári.

Með þessari nýju aðferð er hins vegar búið að taka tappann úr því að hægt sé að byggja hjúkrunarheimili. Nú verður hægt að byggja hjúkrunarheimili með þessari fjármögnunarleið svo fremi sem rekstrarheimildir eru til að reka rýmin. Byggingarkostnaðurinn verður því ekki sama vandamál og hann hefur verið hingað til þannig að ég bind vonir við það með fyrirvara um niðurstöðu verkefnisstjórnar sem metur þörfina. Ég held satt að segja sem leikmaður að þörfin sé nokkurn veginn eins og hv. þingmaður lýsti henni, í kringum 30 rými á Ísafirði. Ég vonast sem sagt til að Ísafjörður geti verið á næsta leiti þannig að við getum farið í framkvæmdir á næsta ári.