138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:56]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar er merkur áfangi og markar tímamót í uppgjöri því sem þarf að fara fram vegna bankahrunsins. Þetta er mjög ítarleg skýrsla og mér segir svo hugur að hún verði leiðbeining til stjórnsýslunnar um ókomna tíð, um hvernig iðka eigi vandaða stjórnsýslu. Það ræðst ekki síst af því hvernig til tekst í framhaldinu hvaða þýðingu þessi skýrsla hefur, en ég vil í þessu sambandi gera Alþingi grein fyrir því hvernig fyrstu viðbrögð hafa verið af hálfu embættis sérstaks saksóknara. Eftir að skýrslan hafði verið kynnt í gær óskaði ég eftir að settur ríkissaksóknari og sérstakur saksóknari kæmu á minn fund og bað þá um að taka til ákveðnar upplýsingar í kjölfarið og mun ég nú greina frá þeim.

Embætti sérstaks saksóknara hefur til rannsóknar fjölda flókinna og umfangsmikilla sakarefna sem m.a. tengjast rekstri stóru bankanna þriggja, eigendum þeirra og smærri fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu hafa þessi mál verið tekin til rannsóknar á grundvelli kæru og ábendinga frá Fjármálaeftirlitinu, skilanefndum bankanna, einstaklingum og að eigin frumkvæði embættisins. Rannsókn málanna er mislangt á veg komin, en fyrstu ákæru er að vænta frá embættinu í apríl og maí samkvæmt upplýsingum frá sérstökum saksóknara.

Settum ríkissaksóknara barst síðastliðinn sunnudag bréf frá rannsóknarnefnd Alþingis þar sem tilkynnt var um margháttaða meinta refsiverða háttsemi sem þurfti að rannsaka af hálfu sérstaks saksóknara. Jafnframt er þar vísað í umfjöllun í yfirgripsmikilli skýrslu nefndarinnar. Ljóst þykir að mörg þeirra atriða sem vikið er að í skýrslunni hafi þegar verið tekin til rannsókna af hálfu embættisins eða Fjármálaeftirlitsins. Sérstök athygli er vakin á því að sum sakarefnanna geti sérstakur saksóknari ekki tekið til rannsóknar nema á grundvelli kæru frá Fjármálaeftirlitinu. Í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ljóst að endurskipuleggja þarf áætlanir embættisins og forgangsraða rannsóknum og er nú unnið að því, virðulegur forseti.

Ég gerði ríkisstjórninni grein fyrir þessu í morgun með minnisblaði. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að sérstökum saksóknara verði gert kleift að tryggja skilvirka og vandaða rannsókn mála og saksókn.

Mat á fjárþörf embættisins fer nú fram og er beðið eftir greiningu frá embættinu á mannaflaþörf embættisins og fjárþörf. Þótt endanleg greining liggi ekki fyrir er ljóst að settur ríkissaksóknari og sérstakur saksóknari telja að væntanlega þurfi að auka fjárveitingar til embættisins verulega. Endanleg niðurstaða liggur sem sagt ekki fyrir í þeim efnum, en ég mun kynna hana ríkisstjórn þegar hún liggur fyrir svo að taka megi ákvörðun um framhaldið. En það er auðvitað mjög mikilvægt að þessi rannsókn geti farið fram hnökralaust og að menn geti sinnt þar skyldu sinni að lögum.