138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[13:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir ræðu hans, því að eins og oft áður erum við á svipuðum slóðum í málflutningi úr þessum ræðustól. Þingmaðurinn hefur setið hér í nokkur kjörtímabil og er þegar, eins og ég sem er búin að vera í ár, búinn að átta sig á að það brast margt í löggjöfinni sem Alþingi setti í aðdraganda bankahrunsins og árin á undan.

Ég fór í ræðu minni í gær aftur til ársins 1994, til að hafa einhvern byrjunarreit, þegar við gengumst undir EES-samninginn. Þar fór ég yfir það að Alþingi var ekki á nokkurn hátt styrkt, hvorki faglega né fjárhagslega, til að taka við öllum þeim reglugerðum sem Evrópusambandið sturtaði yfir löggjafann á Íslandi eftir að við gengumst undir þann samning og svo er ekki enn.

Þó nokkuð margir mánuðir eru liðnir frá hruni og það hefur ekki neitt breyst í lagasetningu á Alþingi. Það er eins og stjórnsýslan hafi gleymt því að Alþingi er þjóðkjörið og Alþingi setur lögin og svo kemur framkvæmdarvaldið og stjórnsýslan undir. Enn er það svo eftir hrun að framkvæmdarvaldið setur sig skör hærra en löggjafarvaldið og þess vegna fór sem fór. Daginn fyrir skírdag kom framkvæmdarvaldið með tæp 50 mál til afgreiðslu í þinginu sem á að afgreiða. Framkvæmdarvaldið er enn að segja löggjafarvaldinu fyrir verkum.

Mig langar að spyrja þingmanninn í framhaldi af þessum hugleiðingum mínum: Er hann ekki fyrir hönd síns flokks tilbúinn til að ganga þá leið með mér og Framsóknarflokknum að gera allt sem við getum til að bæta lagasetningu til að fá aukið fjármagn til Alþingis og til að styrkja lagasvið Alþingis til að við getum snúið af þeirri óheillabraut sem kom okkur þangað sem við erum?