138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að öllu leyti sammála þeim ályktunum sem hv. þingmaður dregur. Hann telur þetta hafa verið safn margra ákvarðana sem leiddu til núverandi stöðu. Ég leyfi mér að halda því fram að ein einstök ákvörðun hafi valdið langmestu og þar á ég við einkavæðingu bankanna, hugsanlega ekki einkavæðinguna sjálfa heldur það fyrirkomulag sem á henni var haft. Ég tel að sú stefnubreyting sem tekin var rétt áður en ráðist var í afgreiðslu frumvarps um einkavæðinguna á hinu háa Alþingi, þar sem horfið var frá dreifðri eignaraðild og farið út í það fyrirkomulag sem síðar var raunin og hafði skipt mestu máli — ég held að sú ákvörðun að úthluta í raun ríkisbönkunum til pólitískra vildarmanna þáverandi stjórnarflokka hafi skipt langmestu þegar maður reynir að grafast fyrir um uppruna þessa.

Auðvitað má vel halda því fram, eins og gert var í Kastljósi í gær, að þáverandi ríkisstjórn hafi, eins og það var orðað, verið óheppin með eigendur. Ég held þó að það sé víðs fjarri því sem raunin er. Ég held að það að fara þessa leið að úthluta bönkunum til pólitískra vildarmanna hafi skipt langmestu. Upp úr því tóku að mínu viti að hrannast upp ýmiss konar vandamál í kerfinu. Á árunum 2004–2005 virðist sem þau hafi farið yfir ákveðinn punkt og þaðan varð ekki aftur snúið. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að árið 2006 hefði ekki verið hægt að grípa til neinna aðgerða sem hefðu beinlínis komið í veg fyrir hrunið. Þetta held ég að sé hin raunverulega stærsta orsök en síðan eru ýmsar aðrar sem auðvitað skipta máli.

Mætti ég þá kannski trufla hv. þingmann með því að spyrja hvort hann telji að það sé eitthvað sem núverandi ríkisstjórn geti gert betur í sínum stjórnarháttum, m.a. til að læra af þessu og koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að nokkuð slíkt geti gerst?