138. löggjafarþing — 105. fundur,  14. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mestu leyti sammála greiningu hæstv. ráðherra og við munum eflaust fylgjast spenntir með þingkosningunum í Bretlandi eftir tæpan mánuð. Við vonumst líklega báðir til þess að hin ógurlega stjórn blairista, sem þar situr enn og hefur gert okkur Íslendingum gramt í geði, falli. (Utanrrh.: … líberalistana.) — Hér kallar hæstv. ráðherra fram í að við styðjum báðir miðjumennina í Bretlandi, líberalistana, og það er ánægjulegt að heyra það.

Að lokum, af því að við erum dálítið á svipuðum nótum, heyrist mér, hef ég áhuga á því að heyra hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér um það að ef eitthvað eitt hafi vantað umfram annað á Íslandi á undanförnum árum, og það þá leitt til þeirrar niðurstöðu sem við horfum upp á, hafi það verið gagnrýnin hugsun, að menn þyrðu að hugsa á gagnrýninn hátt og út fyrir kassann, eins og stundum er sagt, og hefðu þá möguleika á að koma þeirri gagnrýnu hugsun á framfæri. Væri ekki ráð að við reyndum að efla gagnrýna hugsun í samfélaginu, í skólum og annars staðar þar sem því verður við komið? Við skulum líka vara okkur á því að þó að við endurtökum kannski ekki nákvæmlega sömu mistök með því að byggja upp sams konar fjármálakerfi gætum við endurtekið mistökin að því leyti að einhver annar tíðarandi verði allsráðandi og þá megi ekki lengur tala á gagnrýninn hátt um þá heimsmynd. Þá er ég til að mynda að tala um þá hættu sem við stöndum frammi fyrir, að við sveiflumst of langt til vinstri eftir hægri sveifluna, sem mér heyrist við hæstv. ráðherra báðir vera sammála um, að nú sé hættan sú að við sveiflumst of mikið til vinstri og þá megi ekki gagnrýna boð og bönn og annað sem því fylgir.