138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[11:28]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir alþingismenn færa þeim sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis og starfshóp um siðferði og starfshætti, svo og starfsfólki þeirra, bestu þakkir fyrir gríðarlega mikið og erfitt starf undanfarna 16 mánuði. Ég tel að bæði nefndin og vinnuhópurinn, sem forsætisnefnd Alþingis skipaði samkvæmt lögum um rannsókn á falli íslensku bankanna, hafi sýnt í verkum sínum að þau voru fyllilega verð þess trausts sem forsætisnefnd bar til þeirra því hér er tímamótaverk á ferðinni sem mun marka spor í söguna og án efa í starfsemi Alþingis. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eru nokkur atriði er snúa að Alþingi. Þannig er fundið að löggjöf á ýmsum sviðum og pólitískri stefnumörkun sem í þeim birtast. Hvað varðar störf og stöðu Alþingis er þó helstu athugasemdirnar að finna í niðurstöðum siðferðishópsins. Hópurinn setur þar fram ýmsar ábendingar og má greina þær í sex meginþætti:

1. Efla þarf sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og styrkja almennt eftirlitshlutverk þess.

2. Skerpa þarf á ráðherraábyrgð svo sem með því að skýra upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi og ríkisstjórn.

3. Efla þarf góða rökræðusiði meðal kjörinna fulltrúa. — Ég ætla að endurtaka þetta atriði. Efla þarf góða rökræðusiði meðal kjörinna fulltrúa.

4. Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins.

5. Setja þarf skýrar reglur um styrki til stjórnmálamanna og um gegnsæi í bókhaldi stjórnmálaflokkanna.

6. Setja þarf siðareglur fyrir alþingismenn, m.a. til að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála.

Ég get tekið undir öll þessi atriði í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og siðferðishópsins. Þessi atriði mun þingmannanefndin, sem Alþingi kom á fót til að fjalla um skýrsluna, taka til meðferðar á næstu vikum og mánuðum og móta tillögur að viðbrögðum þingsins. Ég tel reyndar eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis fjalli einnig um þau atriði sem að Alþingi snúa.

Sumt af því sem nefnt er í skýrslu siðferðishópsins er reyndar þegar komið í ákveðinn farveg innan þingsins og eru það einkum þau atriði er varða eftirlitshlutverk Alþingis. Ég vil minna á að í september síðastliðnum skilaði vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Alþingis skýrslu um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Í skýrslunni er staða þingsins í stjórnskipuninni skoðuð vandlega og settar fram skýrar ábendingar um hvernig efla megi möguleika Alþingis til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þar er að finna á þriðja tug tillagna um ýmis atriði sem hópurinn leggur til að ráðist verði í að endurskoða og bæta.

Forsætisnefnd tók fljótlega þá ákvörðun að láta vinna drög að frumvörpum um ýmsa þætti í tillögum eftirlitshópsins, m.a. um samningu almennra laga um rannsóknarnefndir, endurskoðun á þingsköpum Alþingis og breytingar á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm.

Vinna við að semja frumvarp til laga um rannsóknarnefndir hófst í ársbyrjun. Þá óskaði ég eftir því við formenn þingflokka í janúar að þingflokkarnir tilnefndu fulltrúa í nefnd til að vinna að endurskoðun laga um ráðherraábyrgð. Skipan þeirrar nefndar er enn ekki lokið en ég mun kalla eftir því við þingflokkana að þeir tilnefni sína fulltrúa þannig að sú nefnd geti hafið störf sem fyrst. Vinna við endurskoðun á þingsköpum er hins vegar langt komin og þar er gert ráð fyrir ýmsum breytingum sem miða að því að gera Alþingi betur kleift að veita stjórnvöldum aðhald og hafa eftirlit með starfsháttum framkvæmdarvaldsins. Í því skyni er m.a. lagt til að settar verði skýrari reglur um rétt Alþingis, einkum þingnefnda, til upplýsinga og gagna frá stjórnsýslunni; að lögð verði skylda á ráðherra að tryggja að Alþingi hafi þær upplýsingar sem hafa verulega þýðingu fyrir þau mál sem eru til meðferðar á Alþingi og að staða minni hlutans á Alþingi verði styrkt. Ég hyggst beita mér fyrir því að fyrstu frumvörp um þessi efni komi fram á haustþinginu.

Ég vil lýsa ánægju minni með hversu málefnaleg umræðan um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur almennt verið síðustu daga. Ég verð þó að gera athugasemdir við mjög ómakleg orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um Alþingi og starfsfólk þess. Þau ummæli sem hv. þingmaður lét falla í þessum sal eru henni ekki til sóma. Í siðferðishluta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er kallað eftir því að þingmenn temji sér góða rökræðusiði. Hv. þingmaður féll á þessu prófi og mætti hafa í huga að ásýnd þingstarfanna er undir þingmönnum sjálfum komin. Þingmenn verða að gæta virðingar sinnar og þar með þessarar mikilvægu stofnunar.

Mér virðist það almennt viðhorf í þjóðfélaginu að rannsóknarnefndin hafi í störfum sínum staðið að fullu undir þeim væntingum sem þjóðin gerði til hennar. Ég skynja almenna ánægju með þessa vönduðu skýrslu sem nefndin hefur unnið fyrir þing og þjóð. Greining á vandanum liggur fyrir og hún er mikilvægt framlag til uppbyggingar þjóðfélagsins eftir þau miklu áföll sem við urðum fyrir haustið 2008. Nú er því tækifærið til að vinna hratt og örugglega úr þeim niðurstöðum sem þingheimur hefur fyrir framan sig. Þingmenn verða að þekkja sinn vitjunartíma og sýna vilja til samvinnu og samstöðu við úrvinnslu þessarar mikilvægu skýrslu. Ef hv. þingmenn sameinast ekki um skýr skilaboð til þjóðarinnar er hætt við að þjóðin glati trúnni á framtíðina og um leið trausti til Alþingis. Grundvöllur okkar lýðræðisskipunar er í húfi.