Þriðjudaginn 20. apríl 2010, kl. 14:12:51 (0)


138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

endurskoðun AGS og lausn Icesave.

[14:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég ber upp fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í tilefni af endurskoðun áætlunar Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem kveðið er á um tiltekin atriði sem snerta Icesave-samningaviðræðurnar. Í fyrsta lagi vil ég inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvers vegna ríkisstjórnin hefur fallist á það að í áætluninni sé haldið áfram að gera áskilnað um einhverja tiltekna niðurstöðu í Icesave-málinu þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar sem fram hafa komið á þinginu, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra og reyndar frá formönnum allra flokka og flestum þingmönnum. Við erum öll sammála um það á þinginu að ekki eigi að gera áskilnað um einhverja niðurstöðu í Icesave-málinu til að endurskoðun áætlunarinnar geti gengið eftir. Þetta er fyrsta atriðið.

Í öðru lagi lýsi ég þeirri skoðun minni að ríkisstjórnin leiki býsna djarft í yfirlýsingum í Icesave-málinu án alls samráðs við stjórnarandstöðuna. Staðan er sú að ríkisstjórnin hefur leitt fram niðurstöðu í Icesave-málinu í tvígang. Í fyrra sinnið stöðvaði þingið ríkisstjórnina. Í seinna skiptið stöðvaði þjóðin ríkisstjórnina. Þessar aðstæður hafa gert það að verkum að flokkarnir hafa sammælst um að eiga með sér samráð um hvert skref í Icesave-málinu.

Nú ber svo við að ríkisstjórnin telur sig þess umkomna að leika einleik í Icesave-málinu, gefa út yfirlýsingar um niðurstöðu í Icesave, loforð sem ganga að mínu áliti lengra en það sem áður hefur verið gert — án þess að ræða það við þingið, án þess að ræða það með formlegum hætti á þeim vettvangi sem skapaður var til að hafa Icesave-viðræðurnar í traustum farvegi. Þetta hlýtur að kalla á skýringar. (Gripið fram í: Þetta er uppgjör.)