Þriðjudaginn 20. apríl 2010, kl. 14:17:14 (0)


138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

endurskoðun AGS og lausn Icesave.

[14:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki beðist afsökunar á því að vilja ræða annað en fjármálaráðherra vill ræða við mig í þingsal. Allt er það rétt og satt sem hann segir, að það er í sjálfu sér ánægjulegt að við höfum fengið aðgang að þeim lánalínum sem við höfum svo lengi óskað eftir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En það breytir ekki hinu að hér eru gefnar yfirlýsingar í Icesave-málinu án alls samráðs og fyrir það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra svari.

Hæstv. ráðherra vísar til þess að í október 2008 hafi verið gefnar ákveðnar yfirlýsingar. Þær náðu ekki lengra en svo að þar var staðfest að við mundum standa við skuldbindingar okkar eins og þær eru á grundvelli samstarfsins við Evrópska efnahagssvæðið. Nú er gengið lengra, nú er vísað í ákveðnar lágmarksfjárhæðir og nú er farið að tala um vexti og aðra slíka þætti. Ég vil minna á að þingið hefur í tvígang sett inn í lög ákvæði um þetta efni þar sem segir:

Komi í ljós að lagalegar skuldbindingar okkar eru annars eðlis en farið er fram á af Bretum og Hollendingum áskiljum við okkur (Forseti hringir.) að fá leiðréttingu, við áskiljum okkur að taka viðræðurnar aftur upp. Það er enginn slíkur fyrirvari í þessari yfirlýsingu núna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þetta kallar á svör frá hæstv. fjármálaráðherra.