138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem orðið hefur um hlutverk þingsins. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafar Nordal um mikilvægi þess að við drögum lærdóm af rannsóknarskýrslunni, að við eflum þingið og tökum alvarlega þær ábendingar og niðurstöður sem þar eru settar fram. Ég er mjög hugsi yfir þessum vinnubrögðum. Við þekkjum það öll að við erum á kafi í vinnu í nefndum. Ég á sæti í viðskiptanefnd. Þar erum við með heildstæðar breytingar á stórum lagabálkum sem tengjast beint þeim hamförum sem hér hafa gengið yfir. Við erum að endurskoða lög um vátryggingar. Við erum að endurskoða lög um fjármálafyrirtæki. Þar er verið að setja stífari reglur, eðlilega, við ætlum öll að leggja okkur fram um að hlutirnir verði með betri hætti. En er það nákvæmlega það sem dugar til? Er það nákvæmlega það sem brást? Ég er ekki algjörlega sannfærð um það. Ég hef áður haft á því orð að ég held að það sé ekki orsök hrunsins hvort endurskoðendur skipti um fyrirtæki eftir fimm ár eða sjö ár enda voru þær reglur um tímasetningar ekki komnar fyrr en árið 2008, þannig að þarna skiptir þetta ekki heildstæðu máli. Ég tek þetta sem dæmi og hef gert það áður.

Ég held að við þurfum fyrst og fremst að gæta þess að við vinnum löggjöfina sem okkur er falin hér, að við gefum okkur meiri tíma, vöndum okkur betur og séum ekki alltaf að klára hlutina á einhverjum handahlaupum með allt of mikið í fanginu. Ég er ekki að kvarta yfir álagi, ég er að kvarta yfir því að ég fái ekki nógu mikinn tíma til að geta sinnt starfi mínu og mikilvægu hlutverki, sem ég tek mjög alvarlega, sem meðlimur á löggjafarsamkomunni. (Forseti hringir.) Þetta eigum við að skoða og þetta eigum við að tala um opinskátt og læra af því.