138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um að við þingmenn þurfum að endurheimta þau völd sem þinginu ber að hafa. Þetta heitir löggjafarvald en í raun og veru erum við kannski komin í það hlutverk að hrinda í framkvæmd eða tjasla upp á löggjöf frá framkvæmdarvaldinu sem á að framkvæma löggjöfina sem á að koma héðan. Þetta er allt ákaflega öfugsnúið. Þegar ég fór að vinna hér vissi ég t.d. að einn flokkur sem hafði verið í minni hluta í tíu ár hafði einungis fengið eitt frumvarp samþykkt, þingmannafrumvarp, á öllum þeim tíma. Það finnst mér ákaflega furðulegt og ég held að flestir viti ekki hvað þingið er veikt. Jafnvel þó að þú sért þingmaður í ríkisstjórn er mjög erfitt að fá þingmannafrumvörp í gegn.

Hér er talað um það að frumvörp endi í nefndum og fari í svefninn langa og svo eru þau endurupptekin kannski 13 sinnum og aftur kallað til fólk til þess að fjalla um málin o.s.frv. Ég komst að því þegar ég var að semja með hinum foringjunum um starfslok þingsins í kringum áramótin að ekkert þingmannafrumvarp fær afgreiðslu nema forsætisráðherra eða fjármálaráðherra veiti því brautargengi. Finnst ykkur þetta eðlilegt, kæru samþingmenn?

Nú er kominn tími til að við þingmenn stöndum saman og gerum eitthvað í þessu. Ég legg til að við myndum einhvers konar hóp þingmanna sem fer að vinna markvisst í þessu. Ég skora á þá sem hafa áhuga á því í alvörunni að við endurheimtum völd og virðingu þingsins að fara að gera eitthvað í því í verki.