Uppbygging fiskeldis

Miðvikudaginn 21. apríl 2010, kl. 12:45:03 (0)


138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

uppbygging fiskeldis.

216. mál
[12:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um uppbyggingu fiskeldis og ég held að það sé alveg upplagt fyrir hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, að snúa sér að einhverju öðru en því að brölta í kvótakerfinu með þeim afleiðingum að stefna undirstöðu atvinnugreinarinnar í fullkomna óvissu, samþykkja skötuselsfrumvarp sem kollvarpar öllum kvótasetningum í landinu og vilja síðan ekkert við það kannast að svo sé. Ég ætla að benda hæstv. ráðherra á önnur verkefni á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem væri alveg upplagt fyrir ráðherrann að fara að einbeita sér að og þar er ég að horfa á fiskeldi.

Fiskeldi hefur verið stundað á Íslandi um langa hríð en ég held að það sé ástæða til þess núna, við þær aðstæður sem hér eru, að leita að frekari tækifærum á þessu sviði, efla þá enn frekar undirstöðuna í sjávarútvegi. Mig langar til að spyrja hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hver skoðun hans sé á uppbyggingu fiskeldis og þá sér í lagi þorskeldis í landinu. Ég vil jafnframt spyrja ráðherrann að því hvort hann hyggist beita sér fyrir framgangi greinarinnar.

Við þekkjum það að veiðar hafa dregist verulega saman í Norður-Atlantshafi. Árið 1980 voru 2 millj. tonna veiddar, árið 2000 var talan komin niður í 1 millj. tonn, að ég hygg, og á árinu 2007 voru þetta um það bil 750.000 tonn. Við sjáum því að þorskveiðar hafa verið að dragast saman á þessu hafsvæði og er fullkomin ástæða til þess fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gera gangskör í því, eða ég vil a.m.k. kanna hug hans til þess, að efla möguleika á því að rækta þorsk.

Ég vil spyrja hann hvaða viðhorf hann hafi gagnvart svokölluðum áframeldiskvóta en hann er ein grunnforsenda þess að menn geti fjárfest á sviði fiskeldis. Það er nokkuð kostnaðarsamt að stunda fiskeldi og reynslan hefur kennt okkur að einungis öflugustu fyrirtækin hér í landi á sviði sjávarútvegs hafa tök á því. Það er afar vandasamt fyrir þau fyrirtæki þegar verið er að sækja mjög harkalega að þeim frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sviði kvótans að ætla á sama tíma að setja mikla peninga í rannsóknir á sviði fiskeldis sem er grundvallaratriði þess að fiskeldi geti átt sér stað, þannig að samhengi hlutanna er svo gríðarlega mikilvægt hér. Um leið og verið er að tefla þessari mikilvægu atvinnugrein í tvísýnu — og ég ætla að taka það fram að ég er ekki með þessu að segja að ekki eigi að gera neinar breytingar á kvótakerfinu en það er afskaplega óskynsamlegt af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er mjög skynsamur maður, að ætla að gera það við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Ég vil því gjarnan fá viðhorf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu efni og hvaða skoðanir hann hafi á þessum mikilvæga málaflokki.