Skelrækt

Miðvikudaginn 21. apríl 2010, kl. 13:06:05 (0)


138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[13:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða er hafin hérna. Á sínum tíma setti ég á laggirnar starfshóp sem hæstv. ráðherra nefndi áðan til að fara yfir möguleika á kræklingarækt. Skiptar skoðanir höfðu verið uppi um það hvort kræklingarækt ætti yfir höfuð nokkra framtíð fyrir sér. Niðurstaða nefndarinnar, sem skipuð var bæði sérfræðingum og fólki úr atvinnugreininni, var ótvírætt sú að kræklingaræktin ætti framtíð fyrir sér. Hins vegar þyrfti að setja um hana almennan ramma og skapa eðlilegar reglur í kringum þetta.

Það var athyglisvert í niðurstöðu þessarar nefndar að hún gerði ekki kröfur um að ríkið kæmi mjög mikið inn í þetta. Ætlunin var sú að byggja þetta upp á forsendum greinarinnar og það er auðvitað það sem skiptir mjög miklu máli. Hins vegar var gert ráð fyrir að haldið yrði uppi vöktun á svæðum o.s.frv. og er mjög mikilvægt að því verði haldið áfram. Það er svo að einstaklingar hafa sett heilmikla peninga í þetta og þeir hafa lagt áhættufé inn í þennan atvinnurekstur en það sem hefur skort á er lánsfjármagn. Ég tel (Forseti hringir.) að Byggðastofnun eigi að koma að því að veita lánsfé inn í greinina því að aðrir eru ekki líklegir til þess. Ég hvet hæstv. ráðherra til að vekja (Forseti hringir.) athygli á því að Byggðastofnun hefur þarna hlutverki að gegna.