Markmið með aflareglu

Miðvikudaginn 21. apríl 2010, kl. 13:34:12 (0)


138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir spurningu um þau markmið sem liggja að baki þeirri aflareglu sem nú er í gildi varðandi nýtingu á þorskstofninum.

Markmiðið með núgildandi aflareglu er að hrygningarstofn á árinu 2015 verði með yfirgnæfandi líkum ekki minni en hann var árið 2009. Langtímamarkmiðið er að nýta þorskstofninn þannig að hann gefi af sér hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Sem kunnugt er hafa árgangar eftir árið 2000 verið verulega undir langtímameðaltali eða um 115 milljónir þriggja ára nýliða en langtímameðaltalið er 180 milljónir nýliða. Árgangur 2008 er nú metinn meðalstór. Á sama tíma er hlutfall stórra hrygna í hrygningarstofni með því lægsta sem þekkst hefur á undanförnum áratug. Það er talið hafa áhrif á stærð árganga og miðar nýtingarstefna næstu ára að því að auka þetta hlutfall og þar með líkurnar á betri nýliðun. Samkvæmt mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins er þessi nýtingarstefna í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og skuldbindingar um nýtingu sem leiði til hámarksafraksturs þegar til lengri tíma er litið.

Þá er spurt: Hver er talin verða þróun viðmiðunarstofns og hrygningarstofns á komandi árum verði aflareglunni fylgt næstu fimm árin? Samkvæmt mati munu hrygningar- og viðmiðunarstofnar þorsks vaxa hægt og verða með yfirgnæfandi líkum stærri árið 2015 en þeir voru í ársbyrjun 2009. Vísbendingar eru um að árgangar 2008 og jafnvel 2009 nái meðalstærð. Gangi það eftir og að auki komi fleiri meðalsterkir eða sterkir árgangar í kjölfarið má reikna með að hrygningar- og viðmiðunarstofnar fari þá mjög ört vaxandi. Þetta eru þau markmið sem sett voru, frú forseti, þegar ákvörðunin var tekin. Við vitum að mjög harðar kröfur eru gagnvart markaðnum að farið sé mjög gætilega og varúðarsjónarmiðum fylgt í þessum efnum og þess vegna er þessi áætlun lögð fram.