Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 12:09:21 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[12:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum.

Frumvarpið er flutt vegna athugasemda sem hafa borist frá EFTA um að lögin hindri frjálsan flutning fyrirtækja og með ákveðnum rökum er verið að bregðast við því. Það sem ég nefndi í andsvari rétt áðan, frú forseti, er að ýmiss konar löggjöf hefur komið frá Evrópusambandinu sem að mínu mati er ekki nógu góð. Hún er hreinlega gölluð. Þar á meðal þetta makalausa ákvæði eða krafa um að hlutafélög og einkahlutafélög mættu lána starfsmönnum til kaupa á hlutafé, sem er að mínu mati galin regla, því að peningarnir geta streymt viðstöðulaust í hring. Þetta var borið fram á Alþingi að kröfu EFTA.

Síðan var Icesave-dæmið, reglan um innlánstryggingar í pínulitlu landi sem kom í ljós að voru alveg meingallaðar. Innlánstryggingarkerfið var meingallað. Að einhver einkabanki hefði viðstöðulaust getað opnað útibú í Hollandi eða hvar sem er í Evrópu og ekki væri hægt að banna honum það. Það eina sem hægt var að gera var að segja að bankinn væri ekki fær um að standa við þetta og loka honum. Það var það eina. Hann gat opnað þetta hvar sem er og sópað inn peningum sem síðan var á kostnað skattgreiðenda. Deilan stendur um hvort það sé á kostnað skattgreiðenda í viðkomandi landi eða á Íslandi. Þetta er meingölluð regla, frú forseti. Ég veit að Evrópusambandið er að breyta þessu en því miður ekki í rétta átt. Í sjálfu sér hefði átt að stofna einn stóran innlánstryggingarsjóð fyrir alla Evrópu sem hefði möguleika á því að stöðva innlánsreikninga með allt of háum vöxtum eins og þessir reikningar voru og stöðva of mikinn vöxt í innlánstryggingarkerfum. Einnig hefði átt að setja í reglur Evrópusambandsins að innlán hefðu alltaf forgang í þrotabú eins og Íslendingar gerðu í neyðarlögunum. Það þurfi fyrir fram að liggja fyrir að þannig væri það.

Þannig að það er ýmislegt að í regluverki Evrópusambandsins sem þeir eru ýmist að breyta eða ekki að breyta eins og hér kemur fram og ég held að það þurfi að búa til einhverja leið til þess að þeir sem sjái þessa galla, eins og við Íslendingar höfum því miður þurft að finna á okkar eigin skinni allalvarlega í hruninu, geti sent bréf eitthvert og bent mönnum á gallann þannig að hann sé lagfærður.

Ég held reyndar að allar þjóðir í heimi ættu að kynna sér hrunið á Íslandi og hvaða afleiðingar það hafði. Sérstaklega athyglisvert er ef meiri hluti bankakerfis hrynur í einhverju landi að þá verði greiðslukort ónýt eða óhæf til greiðslu og fólk geti ekki lengur keypt sér mat eða borgað fyrir þjónustu eða neitt sem er afskaplega alvarlegur hlutur og eiginlega kraftaverk, frú forseti, að tókst að halda gangandi á Íslandi. Þjóðir eins og Þjóðverjar og Frakkar og þjóðir út um allan heim ættu náttúrlega að reyna að gera sér grein fyrir hvað gerist ef 80% af bankakerfinu hrynur á tveim, þrem dögum.

Í frumvarpinu sem við ræðum hér sérstaklega, frú forseti, eru athugasemdir sem ganga út á að ekki megi setja skilyrði sem geri fyrirtækjum erfitt um vik að fara á milli landa, enda gengur Evrópska efnahagssvæðið og Evrópusambandið út á frjálsa för fjármagns, fólks og fyrirtækja. Hér er verið að stytta tímann sem menn þurfa að tilkynna, í staðinn fyrir að gera það á átta dögum áður en þjónustan er veitt þá sé það gert samdægurs. Það er mjög skemmtileg krafa á íslenska stjórnsýslu að hún geti brugðist mjög hratt við. Auðvitað er þetta allt hægt á dögum tölvuvæðingar. Þannig að þetta er svona hvatning til íslenskrar stjórnsýslu að fara að vinna mjög hratt því að hún þarf að geta brugðist strax við ef eitthvað er að í þessum tilkynningum.

Eins fellst ég á það sem hér er sagt að ekki megi brjóta lágmarkskjör launafólks að kröfu EFTA, að það geti í raun ekki krafist þess að lágmarkskjör séu skert. Ég fellst að öllu leyti á þessar athugasemdir.

Það sem mig langar til að benda hv. nefnd á — nú er formaður nefndarinnar ekki viðstaddur og eiginlega ósköp lítill áhugi á þessu máli eins og var á því máli sem ég nefndi hér áðan og olli gífurlegu tjóni á Íslandi — og ég skora á hv. nefnd — ég vona að nefndarmenn heyri þetta einhvers staðar, ég er nú í nefndinni sjálfur þannig að ég get kannski minnt menn á það — að kanna sérstaklega hvernig þessi athugasemd EFTA er og fara í gegnum það hvort hún sé raunverulega svona og hvort við séum að gera einhver mistök með þessum breytingum. Menn þurfa bara að skoða þetta miklu betur, frú forseti.