Barnaverndarlög

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 12:42:00 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað nægilega vel á ræðu mína, eða ég hef ekki tjáð mig nægilega vel. Ég sagði að menn ættu að geta snúið sér til nefndarinnar og hún í kjölfarið hugsanlega breytt lögum ef ástæða er til, en ekki úrskurða eitt eða neitt. Það er ekki málið. Ef það hefði komið fram á sínum tíma, ef eitthvert af þeim foreldrum sem áttu börn á Breiðavík, eða börnin sjálf, hefðu getað komið til nefndarinnar og sagt: Svona er þetta á þessum stað, þá hefði nefndin í kjölfarið getað breytt lögunum, því við erum löggjafarsamkunda. Við setjum rammann utan um þjóðfélagið og við megum ekki, eins og ég hef margoft varað við, treysta of mikið á sérfræðingana. Það vill svo til að við þekkjum þessi mál sjálf. Við eigum sjálf börn og höfum kynnst alls konar félögum og öðrum sem eru í þessu. Það eru ekki aðeins sérfræðingar sem geta búið til lög, það er nefnilega mjög varasamt að sérfræðingar búi til lög. Ég tel miklu skynsamlegra að nefndin hafi frumkvæði að því sem þarf að breyta, t.d. eftirlitinu sem á að setja á laggirnar, og semji frumvörpin sjálf. Nefndin getur kallað til sérfræðinga og spurt þá og síðan lagt mat sitt á það hvort ráðleggingar þeirra eru réttar eða rangar. Það er nefnilega stórhættulegt þegar þjóðfélagið og sérstaklega löggjafinn fer að treysta um of á að sérfræðingar úti í bæ vinni að þessum málum og smíði jafnvel vopn í hendur sér eins og maður sér í skattalögunum.

Ég legg til að nefndin taki málið upp og fari í gegnum það hvernig þessi eftirlitsstofnun yrði hönnuð. Hún geti jafnvel breytt þingsköpum þannig að hv. félagsmálanefnd verði bundin trúnaði um þau mál og þær athugasemdir sem fólk kemur með. Nefndin eigi að breyta umgjörðinni um þjóðfélagið, en ekki dæma í einstökum málum.