Barnaverndarlög

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 12:46:20 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn misskilur hv. þingmaður mig. Ég legg t.d. til að fólk eins og Sævar Ciesielski sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan að hefði ekki verið hlustað á, gæti komið til nefndarinnar og kvartað. Það hlustar enginn á hann að sjálfsögðu, það trúir honum enginn, en nefndin hefði getað spurt aðilana sem um þetta sæju og þeir yrðu að veita upplýsingar. Það mega þeir ekki í dag. Þeir mega ekki í dag veita nefndum upplýsingar. Það er þetta sem ég er að segja, að nefndin sé bundin trúnaði, en hún fái líka allar upplýsingar eins og starfsmenn barnaverndarmála.

Ég er að tala um að starfsmenn barnaverndarmála séu leystir frá þagnarskyldu gagnvart nefndinni þannig að hún geti virkilega kannað hvort það sem viðkomandi segir eigi við rök að styðjast. Það er þetta sem ég á við.

Varðandi það að sérfræðingar smíði lög er það stórhættulegt vegna þess að sá sem semur frumvarpið upphaflega þarf ekki að rökstyðja neitt. Sá sem semur frumvörp í Samkeppnisstofnun um samkeppnislög þarf ekki að rökstyðja neitt. Allir aðrir, ráðherra, ráðuneyti, ríkisstjórn, þingflokkar, nefndir, þurfa að rökstyðja breytingar. Þeir þurfa að segja: Við þurfum að breyta þessu af því að … en ramminn, meginefnið, er höfundar. Það er svo mikilvægt að þingmenn semji frumvörp sjálfir þó að það sé erfitt og þó að það sé vinna, það er þó handbragð höfundarins á frumvarpinu. Við eigum að stórefla nefndasviðið. Við eigum að ráða þangað fólk úr ráðuneytunum sem vinnur við lagasetningu, vinnur við að semja lög. Við höfum fjárveitingavaldið. Við tökum þetta fólk inn til Alþingis, látum það semja frumvörp í nafni nefndanna, í nafni þingmanna sem hafa þá höfundarrétt á viðkomandi frumvarpi.