Heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 16:07:06 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er fyrsta stóra verkefnið og einmitt þess vegna finnst mér fordæmið sem það gefur skipta svo miklu máli. Við eigum að setja markið hátt. Við eigum að einblína á að veita góða þjónustu, vanda til löggjafar, vernda tjáningarfrelsið og búa til eins góða umgjörð um gagnaver og hægt er. Þá fáum við líka miklu meira fyrir þjónustuna sem þau veita og þá skiptir orkuverðið ekki svo miklu máli.

Mig langar líka að benda á að við eigum ekki endalausa orku þrátt fyrir að því virðist oft vera haldið fram. Við eigum ekki að gefa orkuna okkar. Við eigum að fá eins mikinn virðisauka út úr hverri einustu orkueiningu og við frekast getum. Þess vegna finnst mér þessi markaðssetning eins og ég sé hana í bæklingnum frá Verne Holdings mjög leiðinleg og leiðinlegt að sjá að menn fara 20 ár aftur í tímann, til þess tíma þar sem Útflutningsráð eða hver sem það nú var auglýsti: „Lowest energy prices“.