Heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 16:59:07 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um þetta. Ég er ekki tilbúinn til að fyrirgefa þessu fólki heldur. Það er bara svoleiðis. Ég er heldur ekki tilbúinn til að láta það eyðileggja meira fyrir þjóðinni en orðið er. Það má vel vera og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að eignarhald á bönkum er í raun andlitslaust. Margt í okkar samfélagi er andlitslaust en það er líka margt í okkar samfélagi sem hefur andlit og er í raun í skjóli þessarar ríkisstjórnar, t.d. þau öfl sem ráða í fjölmiðlum, verslun og flutningum og komast óáreitt upp með það, þrátt fyrir að eiga sinn þátt í hruninu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að þetta verkefni haldi áfram. Það verður ekki sagt (Forseti hringir.) að sjóðurinn Wellcome Trust sé andlitslaus því hann er vel þekktur og virtur í Bretlandi. (Forseti hringir.) Það fyrirtæki tekur meiri hluta í þessum rekstri og að mínu mati (Forseti hringir.) er það gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvægt skref.