Heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 17:00:50 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans hér að framan og sömuleiðis liðveislu hans við að gera málið eins skaplega úr garði og kostur er. Ég hef fullan skilning á því viðhorfi sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Auðvitað væri ákjósanlegasta staðan sú að við hefðum borið gæfu til þess að móta nú þegar almennar reglur um hvernig stjórnvöld ætla að haga samskiptum sínum við einstaklingana sem bera ábyrgð á bankahruninu. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að þessi stofnun eigi að taka sér tak og móta slíkar reglur. Vandi iðnaðarnefndar í þessu máli er hins vegar sá að við höfum þetta ágæta frumvarp í fanginu og reglurnar hafa ekki verið mótaðar. Við stóðum frammi fyrir siðferðilegu spursmáli. Eigum við að leggja niður vopnin og hleypa þessu máli óbreyttu í gegn? Eða eigum við að hafna því og kasta þar með á glæ atvinnutækifærunum sem í því felast, í ljósi þess að þessi vinna hefur ekki átt sér stað? Við tókum þann kost, ófullkominn og flókinn sem hann er, að freista þess að finna ásættanlega lausn. Forsenda þess var vissulega sú að samkomulag næðist við aðilann sem um ræðir, aðaleiganda Novators. Það tókst og ég tel að þetta sé skásti leikurinn í stöðunni til þess að koma þessu máli í framkvæmd.

Eftir sem áður hvílir á okkur sú skylda að við eigum að móta þessar reglur. Það er rétt hjá þingmanninum að þessi aðili er hluti af íslensku atvinnulífi í dag. Við höfum ekki tæki í höndunum til að kasta mönnum út úr fyrirtækjum sem þeir vinna í og fjárfesta með. Ég ítreka að í frumvarpinu sem kemur til kasta iðnaðarnefndar í næstu viku, um almennar ívilnanir vegna nýfjárfestinga, fáum við tækifæri til þess að leggja mark okkar á nýja löggjöf (Forseti hringir.) og flétta siðferðilega ábyrgð inn í verkefni okkar.