Heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 17:03:11 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir fyrirvarar sem ég set við vinnubrögð nefndarinnar í málinu, eru að við þvingum fram ákveðna niðurstöðu hjá einum aðila málsins. Mér finnst það tæplega viðeigandi vinnubrögð af hálfu Alþingis. Þeir lögfræðingar sem hafa gefið okkur skýringu á því hvort samningurinn sem gerður er við Björgólf Thor, eða Novator í þessu tilfelli, standist jafnræðisregluna, hafa gert það á grundvelli þess að um samning sé að ræða. Þetta sé bara vilji til þess að semja um þessi mál og ekkert því þvingað fram. Þessi samningur er auðvitað þvingaður fram. Þetta er ekkert annað en þvingaður samningur við þennan aðila. Hann sér sig knúinn til þess að koma með eitthvert útspil, eitthvað sem getur sætt nefndina, vegna þess að það er ljóst að annars fer þetta frumvarp ekki í gegn. Það hefði verið miklu hreinlegra af hálfu þeirra sem ekki gátu hugsað sér að afgreiða frumvarpið óbreytt, að hafna því. Það eru fullar forsendur fyrir því.

Þær hugsanir fóru í gegnum huga minn, þegar ég mat afstöðu mína til þessa máls, hvort á þessari stundu væri siðferðilega rétt að hleypa málinu í gegn, vegna aðildar Novators og Björgólfs Thors að því. Ég fór í gegnum það í ræðu minni áðan, að ég mat þessar ástæður ríkari, þ.e. verðmætasköpunina og atvinnusköpunina. Allt sem þessu fylgir, ég mat það ríkara en þessa litlu eignaraðild hans að málinu. En Alþingi er komið út á mjög hála braut í vinnubrögðum sínum, (Forseti hringir.) eða löggjafinn, í því hvernig meiri hlutinn kýs að afgreiða málið. Það er mitt mat. En ég hef skilning á þessu.