Ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 18:34:08 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum.

527. mál
[18:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar um ferjusiglingar frá Bretlandseyjum til og frá Vestmannaeyjum er komin fram. Þetta er hugmynd sem hefur lengi legið í loftinu og það er mikilvægt að við grípum öll þau tækifæri sem til staðar eru til þess að þróa enn frekar ferðaþjónustu hér á landi og eins þá möguleika í samgöngumálum sem standa til boða fyrir ferðamenn sem hingað vilja koma og eins Íslendinga og fyrirtækin sem treysta á samgöngur til Evrópu.

Tækifærin eru mikil og ég tel rétt að farið sé í að kanna þessa möguleika. Tilkoma Landeyjahafnar núna í júní breytir ansi miklu. Hún breytir því að Íslendingar koma til með að ferðast í ríkari mæli til Eyja, ferðaþjónusta þar kemur til með að vaxa og blómstra enn frekar en nú er og því er mikilvægt að grípa tækifærið, horfa til framtíðar, hugsa stórt og reyna að ímynda sér hvaða fleiri tækifæri kunna að fylgja í kjölfarið.

Þess vegna hvet ég hv. þingmann áfram til þess að vinna að þessu máli og heiti honum öllum þeim kröftum sem ég get lagt þessu máli til enda er mikil stemning fyrir því í samfélaginu að efla ferðaþjónustuna og ég tel, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á, mikilvægt að við reynum að treysta innviði samfélagsins með því að fjölga ferðamöguleikum. Ekki veitir af. Ég hvet hv. samgöngunefnd til þess að fara vel yfir þetta mál og vonast til að slík könnun komi til með að eiga sér stað af hálfu hv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.