Kennitöluflakk

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 16:06:44 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á hlutafélagalögum til að draga úr kennitöluflakki. Þetta er mál sem hefur verið rætt mjög lengi. Ég minnist þess að fyrir 20–30 árum ræddu samtök fyrirtækja einmitt þennan vanda sem stafaði af því að fyrirbæri eins og kennitöluflakk skaðar mjög marga. Það skaðar birgja, það skaðar ríkið og það skaðar samkeppni. Það er mjög skaðlegt fyrir fólk og fyrirtæki sem standa í vonlausri samkeppni við aðila sem stöðugt skipta um kennitölur og losa sig við skuldir, sérstaklega við skatta til ríkisins. Þetta hefur verið rætt.

Vandinn er sá að það er erfitt að mæla eða meta orðstír, því við erum að tala um orðstír, heiðarleika, aga og ábyrgð og að einhverju leyti gagnsæi líka. Það er svo erfitt að meta orðstír en menn vita það nokkurn veginn í atvinnulífinu. Ég á ekki viðskipti við þennan náunga en ég á hins vegar alltaf viðskipti við hinn af því hann er heiðarlegur. Hann getur hafa farið mörgum sinnum á hausinn af því hann hefur ofsalega mikið frumkvæði, er mjög duglegur og hefur farið í laxeldi eða sjávarlaxeldi þar sem laxarnir komu ekki til baka. Ókei, þá tapaði hann bara og varð gjaldþrota en það var ekki honum að kenna. Einnig hafa margir orðið gjaldþrota vegna þess að einhver annar varð gjaldþrota sem þeir áttu kröfu á. Því miður eru fjölmörg dæmi einmitt núna um að fyrirtæki hafa farið á hausinn vegna þess að einhver annar fór á hausinn sem þeir áttu enga sök á.

Þetta er því mjög erfitt vandamál en ég held að umræðan sé mjög góð. Ég legg til að viðskiptanefnd ræði þetta í hörgul eftir að hafa fengið umsagnir. Ég vænti þess að aðilar atvinnulífsins komi með góðar umsagnir, því fjölmargir eru brenndir af þessu vandamáli. Hins vegar man ég eftir því fyrir 20–30 árum, þegar menn voru að ræða þetta, að menn gáfust hreinlega upp fyrir vandanum vegna þess að það er svo erfitt að segja að þessi sé gjaldþrota af því hann er skúrkur og hinn sé gjaldþrota af því hann sýndi frumkvæði, dugnað og nýsköpun. Menn gáfust upp fyrir þeim vanda en ég hugsa samt að það sé hægt að gera þetta. Það eru til aðilar sem sérhæfa sig í þessu á vissan hátt, eins og Creditinfo sem metur einstaklinga og gefur út mat á fyrirtækjum. Einnig veit ég að birgjar eru mjög áfjáðir í að vita hvort þeir geti lánað, hvort þeir geti treyst á viðkomandi fyrirtæki, en þeir fá yfirleitt ekki staðgreitt fyrir þá vöru sem þeir selja fyrirtækjum. Ég held að þessi umræða um kennitöluflakk sé afskaplega mikilvæg í því að byggja upp nýtt traust. Það vill svo til að viðskiptanefnd, sem ég á því miður ekki sæti í, er eiginlega sá aðili sem ætti að byggja upp traust á Íslandi, sem hefur laskast mjög illilega, og ég legg til að hún leggi í þetta töluvert mikla vinnu.

Ég er búinn að fara dálítið í gegnum gjaldþrotin. Síðan er annað sem menn hafa nefnt og er eiginlega jákvætt við gjaldþrot en það er sú reynsla sem þeir sem hafa lent í gjaldþroti hafa eftir það. Þeir hafa jú lent í þessum áföllum og eru oft miklu betri í rekstri eftir það. Þeir eru varkárari og átta sig betur á hvar hætturnar geta legið og meta miklu betur líkur á áföllum og öðru slíku. Þeir eru líka tilbúnir til að hlusta á slík rök þegar þau koma. Kannski má segja að í þeim látum og glannaskap sem átti sér stað tveimur, þremur árum fyrir hrun hafi einmitt vantað menn sem höfðu reynslu, höfðu kannski orðið gjaldþrota áður og sem áttuðu sig á því að menn taka ekki sífellt stærri og stærri áhættu án þess að það fari illa. Þessi reynsla getur verið mjög erfið.

Menn mega ekki heldur gleyma því að oft hafa stjórnendur ákveðin tengsl við birgja, einkaumboð við aðila úti í heimi sem þeir hafa umboð fyrir og annað slíkt. Þegar fyrirtæki verður gjaldþrota eru þessi tengsl verðmæti í viðkomandi stjórnanda sjálfum, því hann er í persónulegum tengslum við þá aðila sem hann hefur umboð fyrir og gæti þess vegna stofnað nýtt fyrirtæki með öll umboðin með sér. Þetta er líka vandi sem menn þurfa að horfast í augu við og ég legg til að hv. viðskiptanefnd ræði þetta mjög ítarlega og sendi sem víðast til umsagnar. Ég hugsa að atvinnulífið hafi nefnilega heilmikinn áhuga á því að finna góða og rökrétta lausn á þessu mikla vandamáli.