Umræður á þingi -- skaðabætur vegna bankahruns -- hvalveiðar o.fl.

Þriðjudaginn 11. maí 2010, kl. 13:43:34 (0)


138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að vekja máls á því hvernig skipulagi þingsins er háttað, umræðum í þinginu. Ég tel að við eigum öll að líta í eigin barm í þeim efnum. Ef við horfum á þessa umræðu, og hvernig hún kemur okkur fyrir sjónir, þá á núna á þessum hálftíma að ræða um bætt vinnubrögð og öðruvísi vinnubrögð á Alþingi. Það er rætt um að sækja fjármuni til erlendra banka í kjölfar efnahagshrunsins, það er verið að ræða um hvalveiðar og það er verið að ræða um breytingar á ráðuneytum. Þetta á allt að gerast á 30 mínútum og þingmenn koma upp í handahófskenndri röð og þessi mál eru rædd í símskeytaformi út og suður. Þetta er eitthvað sem við hljótum að vera sammála um að þurfi að breyta. Við þurfum að koma betra skikki á þennan lið hér og ræða með markvissari hætti um einstök mál. Umræðan fer einfaldlega út og suður með því skipulagi sem við ræðum hér.

Ég held að við þurfum að styrkja þingið og það gerum við með því að skilja enn frekar á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndarinnar, og þann lærdóm sem við hefðum átt að draga af henni, þá búum við því miður enn við ráðherraræði á Alþingi Íslendinga. Þannig er það í dag og þannig hefur það verið, ekki síðustu árin heldur áratugina. Þetta er eitthvað sem við verðum að breyta. Ég bind miklar vonir við að þingmenn, líkt og hv. þm. Oddný Harðardóttir, fari að breyta þessum hugsunarhætti. Það eru ráðherrarnir sem eiga að sækja umboð sitt til þingmanna og við eigum, hvort sem við sitjum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að standa fastar í lappirnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Alþingi Íslendinga á að veita framkvæmdarvaldinu miklu meira aðhald en við höfum gert. Það á við um stjórnarliða líkt og stjórnarandstæðinga. Tökum okkur tak, sama hvar í flokki við erum, lærum af reynslunni og hefjum Alþingi Íslendinga á ný til vegs og virðingar gagnvart framkvæmdarvaldinu.