Vistvæn innkaup

Miðvikudaginn 12. maí 2010, kl. 15:27:36 (0)


138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var alinn upp við þá dyggð að reyna að spara pappír. Ekki bara þannig að maður prentaði beggja megin á pappírinn heldur að reyna að gæta þess að skrifa helst á umslögin sem maður fengi til þess að nýta pappírinn sem allra best.

Þessi lífsreynslusaga var ekki aðalerindi mitt í ræðustól að þessu sinni heldur að færa inn í þessa umræðu áhugavert sjónarmið sem gamall flokksbróðir hæstv. fjármálaráðherra vakti einu sinni athygli mína á, mikill skógræktarmaður og frumkvöðull á þeim sviðum. Hann taldi einfaldlega að allt tal um að spara pappír væri tóm vitleysa frá umhverfislegu sjónarmiði. Svarið væri einfaldlega það að ef það vantaði meiri pappír mundi maður bara planta út meiri trjám og efla skógræktina og það væri sjálfbært og þess vegna væri þetta allt saman tóm vitleysa, sem við höfum oft verið að ræða um, að það væri svo ákaflega umhverfisvænt að spara pappírinn. Þvert á móti ættum við bara að hyggja að því að efla okkur í skógræktinni. Ég er sammála því að efla skógræktina. (Gripið fram í.)