Vistvæn innkaup

Miðvikudaginn 12. maí 2010, kl. 15:31:03 (0)


138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek út af fyrir sig undir það og m.a. vegna eljusemi hv. þingmanns hef ég verið að spyrjast fyrir um það hvað sé í gangi til þess að halda þessu betur á lofti og kynna þetta. Það má ugglaust gera eitthvað betur í þeim efnum og ég hyggst stuðla að því að svo verði.

Það var út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að auðvitað er enn umhverfisvænna að tala bara alveg blaðalaust og sleppa því að prenta hlutina út. Ég hef gert dálítið af því um dagana satt best að segja og ekki alltaf verið með skrifaða ræðu í þessum ræðustóli þannig að ég hef reynt að leggja mitt af mörkum.

Varðandi skógræktina og hráefnið í pappírinn er það út af fyrir sig gilt sjónarmið frá okkar gamla, góða vini, sem mun hafa gaukað þessu sjónarmiði að hv. þm. Einar K. Guðfinnssyni, að það er alls ekki óumhverfisvænt í sjálfu sér að menn planti trjám. Sjálft hráefnið í pappírinn, að því tilskildu að um sjálfbæra skógrækt sé að ræða, er kannski ekki það sem menn horfa á heldur fremur vinnslan og efnanotkun við vinnsluna í ákveðnum mæli og fleira í þeim dúr. Talandi um timbur rifjast upp fyrir mér sagan af vandræðum verslunarstjórans í KL á Þórshöfn, Jónsa frænda míns, þegar það varð timburlaust eitt vorið á Þórshöfn. Bændur voru eðlilega óhressir með þetta, kvörtuðu sáran og töldu verslunarstjórann ekki standa sig. Hann greip til þess í vörn sinni að segja að þetta væri nú ekki auðvelt þegar skógarnir væru allir að verða búnir í Finnlandi. En sem betur fer var það nú ekki svo heldur var það bara afsökun verslunarstjórans. Á Íslandi stefnir í gjörbreyttar aðstæður í þessum efnum þar sem er ljóst að við getum í vaxandi mæli á komandi áratugum orðið sjálfum okkur næg um allt sem til þarf í öflugan og blómlegan trjávöruiðnað.

Að lokum tek ég undir það sem kom fram hjá hv. málshefjanda að mikilvægt er að samþætta þetta inn í allan rekstur ríkisins og að sjálfsögðu horfa menn á stóru aðilana sem annast um stærstu innkaupin og hafa mest umleikis í þessum efnum, eins og Ríkiskaup eða Ríkisspítalana eða aðra slíka mjög stóra aðila. Þar skiptir miklu máli að (Forseti hringir.) menn séu vel á vaktinni í þessum efnum. En þetta þarf auðvitað, eins og annað, að ganga niður í allt kerfið. Við þurfum að stefna að því að allir séu meðvirkir, allir séu þátttakendur og allir séu stoltir af sínu litla sem þeir leggja fram í þessum efnum.