138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

samningsmarkmið varðandi landbúnað í viðræðum við Evrópusambandið.

565. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa skapast en ég get ekki þakkað hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra gerði það eitt að lesa bókanir frá Bændasamtökunum, sem ég er mjög vel með á, og síðan upp úr nefndaráliti utanríkismálanefndar frá því í fyrra, sem við ræddum ítarlega þegar verið var að fjalla um þessi mál. Þetta er ekki boðlegt svar og getur ekki gengið og hæstv. ráðherra boðar síðan að það komi skýrara svar í síðari ræðu hans þegar ég hef ekki möguleika að tjá mig aftur og bregðast við. Þetta gengur ekki og virðulegur forseti verður þá að skapa svigrúm til að slík umræða geti farið fram þótt síðar verði.

Mér var engan veginn ljóst hvað hæstv. ráðherra var að fara. Hann var þó fyrst og fremst að árétta þau atriði sem lúta að því að reyna að verja hagsmuni íslensks landbúnaðar. Kjarni málsins er mjög einfaldur. Ef við föllumst á það sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir um landbúnaðarmálin, og það eru grundvallaratriði í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, þá er það algerlega ljóst mál að það hefur mjög víðtæk og neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað. Hagsmunir íslensks landbúnaðar eru ósamrýmanlegir því sem verið er að leggja upp með af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þetta er ekki flóknara en það.

Evrópusambandið er í rauninni að segja: Hendið burtu íslenskri landbúnaðarstefnu. Evrópusambandið er að segja: Við ætlumst til að þið heimilið innflutning á lifandi dýrum. Evrópusambandið segir líka: Að sjálfsögðu fer allt þetta tollaverk burtu og öll tollvernd íslensks landbúnaðar gagnvart Evrópumarkaði. Þetta er ekki eitthvað sem menn geta snyrt til með snjöllum samningamönnum sem eru sendir til Brussel. Þetta eru grundvallaratriðin í Evrópuréttinum sjálfum og menn vita þetta og vissu þetta algerlega frá upphafi. Þess vegna var verið að skrifa þessa fyrirvara alla saman inn í álit utanríkismálanefndar. Kjarni málsins er þessi: Er fagráðherrann á sviði landbúnaðarmála tilbúinn til að falla frá þessu öllu saman til að hægt sé að ná samningum við Evrópusambandið? Hæstv. ráðherra verður að svara því.