Utanríkis- og alþjóðamál

Föstudaginn 14. maí 2010, kl. 13:04:33 (0)


138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið nokkrum sinnum, býr forseti Íslands við málfrelsi. Stjórnarskráin er þannig að ekki er með nokkrum hætti hægt að stemma það sem hann vill segja. Hins vegar er mjög æskilegt að forseti Íslands og ríkisstjórnin hverju sinni séu samhljóða í málum sem varða utanríkisstefnuna. Ég læt það nú koma fram að oft á tíðum hefur verið ágætt samráð milli forsetaembættisins og utanríkisráðuneytisins um tiltekna hluti. Forsetaembættið hefur haft aðgang að ákveðnum gögnum hjá okkur í ráðuneytinu sem vonandi hafa skýrt mál ef svo ber undir. Í þessu tiltekna tilviki var það einfaldlega þannig að ummælin sem hv. þingmaður vísar til voru ekki alveg í samræmi við veruleikann, þ.e. ummælin féllu á þann veg að gera mætti ráð fyrir því að eftir gosið yrði stórt Kötlugos. Svo er alls ekki samkvæmt reynslunni. Af þeim 17 gosum sem orðið hafa í Kötlu og menn hafa heimildir um hefur það bara gerst þrisvar sinnum að Eyjafjallajökull hafi ræst Kötlu og í öll skiptin hafa það verið lítil gos. Gosið í Eyjafjallajökli er ívið meira en meðalstórt Kötlugos. Það eru svona upplýsingar sem þarf að koma á framfæri. Það gerði utanríkisráðuneytið með því að hafa samband við fjölda fjölmiðla með því að leita uppi neikvæðar fréttir og svara þeim strax á sama vettvangi. Það tókst nokkuð að draga úr þessu á töluverðum tíma þó, en það var erfitt. Utanríkisráðuneytið hefur sem sagt mannskap (Forseti hringir.) sem gerir ekkert annað en að sinna þessu verki.