Utanríkis- og alþjóðamál

Föstudaginn 14. maí 2010, kl. 16:21:37 (0)


138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[16:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Utanríkisráðherra hefði aðra sýn á þessi mál ef hann hefði verið í sveit í Dölunum. (Utanrrh.: Hann var á Mýrunum.) Það sem ég var að vitna til og hef vitnað til hér í dag er einfaldlega það sem hefur komið frá ráðuneyti hæstv. ráðherra. Mig langar að lesa upp, með leyfi frú forseta:

„Breyting hefur orðið frá fyrri stækkunarviðræðum ríkja sem nú eru komin inn í ESB til þeirra sem nú standa yfir — þ.e. Króatía og Tyrkland. Byggir hún á reynslu úr síðustu stækkunarviðræðum þannig að sérstök áhersla er nú lögð á að ríki hafi í raun uppfyllt tiltekin skilyrði varðandi hvern og einn kafla áður en þeir eru opnaðir og einnig áður en þeim er lokað. Í þessu felst að sem minnst er gefið af frestum til að uppfylla skilyrðin áður en köflunum er lokað. Heldur er þeim ekki lokað fyrr en ákveðnum markmiðum er í raun náð í framkvæmd og innleiðingu löggjafar í viðkomandi ríki.“

Þetta er einnig staðfest í þessari skýrslu utanríkisráðherra. Ég hef einnig látið skoða þetta hjá Evrópusambandinu þannig að það er ekki hægt að fara í kringum þetta eins og köttur í kringum heitan graut, líkt og hæstv. ráðherra hefur gert. Það er einfaldlega svo að Evrópusambandið hefur og mun setja einhver skilyrði fyrir því að opna samningakafla og það mun líka setja skilyrði fyrir því að loka þeim. Þá hlýtur maður að spyrja núna hvort eitthvað sé komið upp á borðið, hvort einhver skilyrði hafi verið nefnd fyrir því að opna samningakaflana. Það hlýtur líka að vera skýr krafa af hálfu Alþingis og þeirra sem tala fyrir því að þjóðin eigi að kjósa um þennan aðildarsamning, eins og hæstv. ráðherra hefur gert, að við séum ekki í neinni aðlögun að Evrópusambandinu eins og Evrópusambandið sjálft setur upp kerfið. Þetta kerfi er ekki sett upp fyrir þjóðir sem eru einfaldlega að skoða hvað er í boði. Þetta er sett upp miðað við að þjóðir vilji ganga í Evrópusambandið og þess vegna er þetta aðlögunarferli. Það er enginn að gera bjölluat í Brussel nema Íslendingar.