Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 15:04:40 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og málefnaleg. Menn tala um að efla þurfi sparisjóðakerfið og það þurfi að selja fyrirtæki út úr bönkunum o.s.frv. Það er hárrétt, ég er alveg sammála því, en hafa menn einhvern tímann sett sig í spor stofnfjáreigenda sem eru nýbúnir að tapa öllu sínu sparifé í stofnbréfunum? Hafa menn sett sig í spor hlutafjáreigenda sem eru nýbúnir að tapa öllu sínu hlutafé? Og láta menn sér detta í hug að einhver fari að kaupa stofnbréf núna? Hverjum dettur það eiginlega í hug? Hverjum dettur í hug að einhver Íslendingur fari að kaupa stofnbréf núna? Hverjum dettur í hug að einhver Íslendingur fari að kaupa hlutabréf? Mér dettur ekki í hug að nokkur Íslendingur kaupi hlutabréf í dag vegna þess að það er búið að lemja á þessum fjármagnseigendum sem sumir segja að hafi allt sitt á þurru en höfðu nú ekki sitt meira á þurru en svo að þeir eru nánast allir búnir að tapa eign sinni, sparnaði sem þeir höfðu lagt fyrir og frestað neyslu. Sumir tóku til þess lán og eru í mjög slæmum málum. Svo tala menn hér eins og hægt sé að láta menn kaupa aftur, detta bara aftur ofan í brunninn sem þeir eru nýskriðnir upp úr.

Nei, frú forseti, það verður að breyta þessu vantrausti, þessari tortryggni fyrrverandi fjármagnseigenda gagnvart því formi sem þeir fjárfestu í, áhættufénu sem er hlutabréf og stofnbréf. Sá þáttur, frú forseti, myndar atvinnu í landinu. Það má rökstyðja að það er fátt sem myndar atvinnu nema áhættufé eða lánsfé. Tölum við lánveitendur, tölum við erlenda banka og segjum við þá: Nú skuluð þið lána íslenskum fyrirtækjum aftur. Þeim dettur það ekki í hug, það væri það síðasta sem þeir gerðu. Íslenskir bankar lána ekki einu sinni íslenskum fyrirtækjum af því að þeir treysta þeim ekki vegna þess sem gerðist. Það þarf að byggja upp traust, annað er ekki hægt, við verðum að gera það. Við verðum allir, hv. þingmenn, að vinna saman að því að byggja upp traust og það verður gert með einu móti, að koma í veg fyrir þá hringekju á peningum sem voru hér í gangi og menn höfðu fyrir augunum og eru nú að koma í ljós í alveg gífurlega miklu magni. Við verðum að stoppa þetta. Það verður ekki gert, ég sé ekki aðra leið, öðruvísi en að koma á gegnsæju hlutafélagaformi, gegnsæju eignarhaldi og að það megi ekki lána eða kaupa til eiganda síns, aldrei nokkurn tímann, eða eigenda hans og svo eiganda þess. Það má aldrei lána til eða kaupa í foreldrakeðjunni upp á við. Þá komum við í veg fyrir það að peningar fari í hring og að blómleg fyrirtæki sem virðast vera blómleg séu holuð innan frá.

Hugmynd mín er sú að hv. nefnd setji lög um fjármálafyrirtæki sem geri þau gagnsæ. Og látum kröfuhafana trompast, þeir munu mótmæla því hástöfum að þeir hafi ekki atkvæðisrétt, eins og ég stakk upp á í fyrri ræðu að þeir fengju ekki atkvæðisrétt nema eignarhald þeirra væri gagnsætt alveg upp úr, sem þeir að sjálfsögðu geta ekki sýnt fram á og þá fá þeir ekki atkvæðisrétt. Eingöngu einstaklingar og fyrirtæki sem eru gegnsæ mættu hafa atkvæðisrétt. Þeir munu örugglega fara í mál og þá mun þeim verða sýnt fram á að hlutafélagaformið er gallað. Það er gallað, það er hægt að búa til keðjur sem eru galtómar en sýnast hafa mikið eigið fé og sýnast hafa góða burði þó að það sé enginn burður í þeim, þó að allt sé tómt. Þennan galla sem menn notuðu sér í stórum stíl á Íslandi þarf að leiðrétta. Ef við settum þetta inn í lögin um fjármálafyrirtæki mundu kröfuhafarnir að sjálfsögðu mótmæla, þeir mundu sjá þennan galla og þeir færu þá kannski að kíkja á hvernig þetta er heima hjá þeim, því að þar er þetta form líka notað í stórum stíl með sama hætti, í Þýskalandi, í Japan og kannski síður í Bandaríkjunum af því að þar er arður á milli móður- og dótturfyrirtækis skattlagður. Ég held að menn ættu að grípa tækifærið og það eru mörg tækifæri núna til að gera ýmsar róttækar breytingar. Ég skora á hv. nefnd að skoða þessa hugmynd.