Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Mánudaginn 07. júní 2010, kl. 11:34:40 (0)


138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:34]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek í sama streng og síðasti hv. ræðumaður, Guðbjartur Hannesson, og vil að við einbeitum okkur að þeirri dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi. Þar er að finna fjölmörg gríðarlega mikilvæg mál sem lúta að lýðræðisumbótum og bættri réttarstöðu skuldugs fólks og fyrirtækja. Hér er búið að koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri sem ég tel fulla ástæðu til að koma til móts við, þ.e. að farið verði yfir dagskrána og málum forgangsraðað á þeim sjö dögum sem fram undan eru en að við eyðum ekki klukkutíma í karp um fundarstjórn forseta. Eru það raunverulega skilaboðin og lærdómurinn sem við drögum af hruni heils bankakerfis og stjórnmálakerfis og niðurstöðum síðustu sveitarstjórnarkosninga að menn standi hér og ræði hver á fætur öðrum um fundarstjórn forseta og flytji sömu ræðurnar aftur og aftur í algerri tímaeyðslu? Það er ámælisvert að ganga svoleiðis fram. Þetta snýr að öllum þingmönnum. Förum í dagskrá fundarins (Forseti hringir.) og göngum í þau mál sem liggja fyrir fundinum en eyðum ekki tímanum í svona vitleysu.