Notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun

Mánudaginn 07. júní 2010, kl. 17:58:56 (0)


138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[17:58]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og fagna því að þetta mál skuli vera komið svo langt að fram er komið nefndarálit og verið er að fara í þá mikilvægu vinnu að koma á lagaumhverfi um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun.

Það hefur verið baráttumál samtaka fatlaðra nokkuð lengi að fólk geti stjórnað því sjálft hvaða þjónustu það fær og hverjir veita hana. Þetta er mikið mannréttindamál, eins og komið hefur fram í umræðunni. Hingað hefur komið fólk frá nágrannalöndunum og sagt frá því hvernig er að búa við þessa þjónustu þar sem hún er komin á og ég hef verið sannfærð um það frá því að umræða um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun kom fyrst fram að við verðum að koma henni á hér á landi.

Þann stutta tíma sem ég var í félagsmálaráðuneytinu sem félagsmálaráðherra átti ég fundi með fólki sem barðist fyrir því að koma á þessari þjónustu. Ég var mjög hlynnt því og vildi gjarnan setja á laggirnar vinnu við að undirbúa löggjöf um slíkt en auðnaðist ekki tími til þess á þeim stutta tíma sem ég var í ráðuneytinu, því miður. Ég sé að það hefur ekki komið að sök því að verið er að fara af stað með þessa vinnu og ég fagna því innilega. Við vitum það sem höfum fylgst með velferðarþjónustunni hér á Íslandi á undanförnum áratugum að það hefur reynst mörgum fötluðum afar erfitt hvernig þjónustunni við þá hefur verið háttað. Ég hef margoft sagt sögur af fólki sem ég þekki persónulega sem hefur stöðugt fengið nýja ókunnuga inn á heimilið en ekkert haft um það að segja hverjir kæmu. Einhver kom á morgnana frá borginni til að klæða og annar frá ríkinu á kvöldin til að hátta og svo var nánast aldrei vitað hver kæmi næstur inn á heimilið til að veita þjónustuna. Því er mjög mikil bót á þjónustunni fram undan þegar þessi lagasetning verður komin á og farið verður að vinna eftir henni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en óska því fólki til hamingju sem hefur barist fyrir því að koma þessari þjónustu á. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að hafa leitt þessa vinnu og þeim sem voru í nefndinni fyrir að hafa tekið svona vel í þetta mikla mannréttinda- og þjóðþrifamál sem þessi þjónusta er fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Ég óska fólki til hamingju með það.