Heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 17:17:44 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vakti athygli á því að verið væri að auðvelda tveimur fjármálastofnunum veðsetningu. Ástæðan er sú að í stað þess að setja gömlu bankana í þrot á sínum tíma ákváðu stjórnvöld sem voru við völd í október 2008 að reisa nýja banka á grunni þeirra gömlu. Ég velti því fyrir mér eftir ræðu hv. þingmanns hvort hann hafi verið sammála þessum gjörningi, þ.e. að keyra ekki gömlu bankana í þrot á sínum tíma. Það hefði að mínu áliti gert uppgjörið, sem nú er í gangi og frumvarpið er hluti af, milli nýju og gömlu bankanna mun skýrara og auðveldara, ekki síst fyrir löggjafann.