Heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 17:35:01 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[17:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir andsvarið. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þessi umræða er nátengd því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu og þeirri hugmynd að búa til nýjan tryggingarinnstæðusjóð. Það er alveg rétt að tryggingarinnstæðusjóðurinn eins og hann er núna er gjaldþrota. Það er algjörlega ljóst. Ef af samevrópskum tryggingarinnstæðusjóði verður er spurningin hvort við viljum vera aðilar að honum eða hvort við viljum einhvern séríslenskan tryggingarinnstæðusjóð með einhverri B-deild eða annað slíkt eða hvort hann mundi þá bara renna inn í þennan sjóð. Ég held að það breyti litlu um þann punkt sem ég var með áðan.

Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að það er búið að veðsetja eignirnar. Við erum að gera breytingar hérna á lögum þannig að þetta sé raunverulega skýrt, þeir samningar sem hafa verið gerðir. Ég velti þessari hugdettu upp til að menn hugsi málið. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Það getur vel verið að svo sé ekki en aðalpunkturinn hjá mér áðan var samt að það var ekki mjög klókt að veðsetja eignir bankans eins og gert var.