Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 13:23:17 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[13:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Sú breyting sem hér er verið að gera er á þann veg að lengja kærufrest umhverfisráðherra samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum úr tveimur í þrjá mánuði með möguleika á þriggja mánaða framlengingu. Niðurstaðan er sú að fallist er á það með fyrirvara af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd að gera þessa breytingu með þeim rökum að inn hafi komið tillaga sem hér liggur fyrir til afgreiðslu um að ráðherra beri að rökstyðja sérstaklega viðbótarfrestinn. En ekki síður sammæltist nefndin um það að beita sér fyrir því að unnin yrði heildarúttekt á lögum um mat á umhverfisáhrifum með það að markmiði að auka málshraðann til að einfalda og hraða vinnslu mála.