Aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 14:36:16 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við hæstv. utanríkisráðherra höfum lítillega sveigt af leið í umræðunni en engu að síður held ég að þetta sé umræða sem eigi erindi við þingið. Hvað varðar upprifjun hæstv. ráðherra á orðum sem ég kann að hafa látið falla sem ungur þingmaður verð ég að segja að ég man ekki til þeirra en vel má það vera rétt. En alltaf fer manni nú fram og vera kann að maður sé að þroskast, bæði sem maður og lögfræðingur og þingmaður.

Að öllu gamni slepptu er það auðvitað svo að lög eiga að vera tiltölulega skýr. Það á ekki síst við um lög sem eiga að hafa refsiréttarlegt gildi. Það er viðtekið viðhorf að refsilög verði að vera skýr. Lög sem fela í sér refsiákvæði þurfa að vera skýr þannig að um sé að ræða nothæfar refsiheimildir fyrir dómstólum. Allir geta sameinast um að allir, sérstaklega þeir sem gegna opinberum störfum, eigi að hegða sér vel og vera góðir hver við annan og taka tillit hver til annars, eins og er vissulega að finna í drögum að siðareglum þeim sem forsætisráðherra hefur lagt fyrir þingið, það eigi að virða lýðræðislegan rétt undirmanna og slíkt. Þetta hljómar allt mjög vel en hefur óskaplega litla efnislega þýðingu, hæstv. utanríkisráðherra.

Ef um er að ræða atriði sem eru það mikilvæg að það er rétt að leggja á refsingu við brotum, t.d. þegar um er að ræða einhvers konar mútur, mútustarfsemi eða önnur alvarleg brot, þá verður refsiheimildin auðvitað að vera skýr. Þá koma óljós orð, þó að þau séu afar falleg á blaði, láti vel í eyrum og allir geti um þau sameinast, ekki að neinu haldi. Það var fyrst og fremst þessi punktur, hæstv. forseti, sem ég vildi koma á framfæri.

Um aðra vinkla sem vikið var að í ræðu hæstv. utanríkisráðherra held ég að við ættum ekki að tefja umræðuna meira. Ég bið hæstv. forseta afsökunar á þessum útúrdúr. Við getum geymt þessa umræðu þangað til mál hæstv. forsætisráðherra um siðareglur kemur nánar til umræðu. Þá hljóta menn einmitt að spyrja sig þessara spurninga. Það hljómar afskaplega vel að setja siðareglur en það er ekkert óskaplega mikilvægt og felur ekki í sér mikla breytingu ef í siðareglunum er bara tvennt, annars vegar hlutir sem þegar eru í lögum, annaðhvort í refsilögum, stjórnarráðslögum, lögum um starfsmenn hins opinbera, stjórnsýslulögum, upplýsingalögum eða einhverjum slíkum lögum. Það er engin viðbót af því þó að slík ákvæði séu sett í siðareglur. Og svo hins vegar, fyrir utan þau atriði sem þegar eru komin í lög, einhverjar óljósar reglur sem jafna má til laga dýranna í Hálsaskógi.