Tekjuskattur

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 15:19:37 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nauðasamningar eru þegar undanþegnir eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Sömuleiðis er það þannig að margnefnd 28. gr. tekur til þeirra tilvika þegar engar eignir og ekkert aflahæfi er til að greiða skuldina sem mundi myndast við tekjufærslu, væri hún framkvæmd, og þá er ekkert andlag skattlagningar og hún er niðurfelld. Það sem hér er verið að gera gengur auðvitað miklu lengra. Ég fór að ég taldi sæmilega ítarlega yfir það í framsöguræðu minni.

Nú geta menn auðvitað haft það sjónarmið sem hv. þingmaður hafði að grunnregla skattsins og það hvernig þetta hefur verið undanfarin ár sé einhver vitleysa. Einstaklingar eru auðvitað ekki gerðir upp í skattalegu tilliti með sama hætti og lögaðilar, það er ekki þannig. Við erum ekki gerð upp eins og fyrirtæki hvert og eitt. Við getum ekki dregið frá tekjunum okkar heimilisútgjöld og borgað svo skatt af afganginum, það er ekki svoleiðis. Þetta veit ég að hv. þingmaður þekkir. Þannig að það er ekki hægt að blanda þessu saman að mínu mati með þeim hætti sem var gert. Og þeir sem hafa staðið ábyrgir fyrir skattalögum á undanförnum árum verða að taka þá gagnrýni til sín fremur en ég.

Skattalögin eru eins og þau eru og ég hygg að þau hafi verið svona síðan 1946. Það sagði mér einhver fróður maður, þannig að svona hefur þetta nú staðið í gegnum tíðina að hvers kyns arður, gæði, laun og hagnaður sem hlýst af aðgerðum af þessu tagi skal koma til skattlagningar hjá einstaklingum. Skiptir ekki máli hvort menn fá verðlaun fyrir glæsta frammistöðu í vísindum úti í heimi eða eru á heiðurslaunum listamanna eða hvað það er; allt slíkt myndar andlag skattlagningar af því að það er meðhöndlað sem tekjur í skilningi skattalaga hjá — (Gripið fram í: Hinu opinbera.) Það hafa kannski verið gerðar undantekningar í einu eða tveimur frægum tilvikum hjá einstaklingum.

Um þetta getum við auðvitað rætt. En aðalatriði málsins er það sem ég hygg að verði ekki mótmælt hér, að með þessu frumvarpi eru veittar ívilnanir í svo ríkulegum mæli (Forseti hringir.) að algerlega yfirgnæfandi hluti allra þeirra sem vonandi fá nú úrlausn sinna mála í skuldalegu tilliti á næstu mánuðum og missirum eða hafa þegar gert það (Forseti hringir.) verður ekki fyrir skattskyldu.