Tekjuskattur

Fimmtudaginn 10. júní 2010, kl. 16:52:07 (0)


138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að stóra einstaka málið sé, og ég sannfærðist um það eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, að við eigum að setja okkur það markmið að um einfaldar leiðir verði að ræða. Umræðan hér, og nú eiga menn að vera þokkalega færir í þessu, sýnir að textinn er þannig að það virðist vera ansi snúið að átta sig á því hvað hann þýðir. Ef það er pólitískur vilji — á bls. 5 segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu, og með hliðsjón af þeim úrræðum sem lánastofnanir og ríkisvaldið hafa boðið skuldurum upp á og sammælst um, skapast almennt ekki skattskylda þótt skuldir séu lækkaðar.“

Þetta þýðir, virðulegi forseti, að ef farið er í þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið upp á, ef ég skil þetta rétt, á ekki að skattleggja. En ég held að við eigum þá bara að segja það, að það sé þá bara skýrt og við getum tilgreint það. Þá sé það alveg á hreinu að ef menn fara þessa hefðbundnu leið, hvort sem það er sérstök skuldaaðlögun eða önnur úrræði sem boðið er upp á og eru þekkt, og það þýðir eftirgjöf skulda, sé það ekki skattskylt. Ég held að við værum komin ansi langt ef við værum komin þangað. Síðan getum við þá séð hvað er eftir og skoðað það sérstaklega þó svo að ég haldi að langeinfaldasta málið væri bara niðurfærsla skulda sem tengist húseignum og bílum, að það væri ekki skattskylt við þessar aðstæður. Kannski væri hægt að binda það við eitthvert tímabil eða eitthvað slíkt en það er, held ég, niðurstaðan af þessari umræðu að það þarf að einfalda þetta. Þetta er of flókið.

Síðan hefur verið hér áhugaverð umræða um fyrirtækin og þar gildir það sama, einfaldleikinn skiptir máli. Í umræðum hefur komið fram að þegar menn eru að vísa í rekstrartap, ég skil það svo, þá er það eftir fjármagnsliði og þannig komast menn að þeirri niðurstöðu að flest fyrirtæki íslensk eiga rekstrartap. Ég var ekki viss um það, þegar menn ræddu það áðan, hvort verið var að vísa í reksturinn fyrir fjármagnsliði eða eftir, en eins og ég nefndi er það sem betur fer þannig að mjög mörg fyrirtæki eru í góðum rekstri en þau bera illa skuldirnar sökum þess kerfishruns sem varð.

Virðulegi forseti. Í stóra samhenginu held ég að við þurfum að koma í veg fyrir það sem var tilkynnt í fréttum í dag. Ég skrapp fram, fór á vefinn og sá rétt áðan að forsætisráðherra er búinn að lýsa því yfir að við lítum til Kína eftir fyrirmyndum. Í fréttinni segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segi að íslensk stjórnvöld hafi leitað fyrirmyndar í Kína við endurreisn hagkerfisins. Þetta er haft eftir Jóhönnu í kínverska ríkisfjölmiðlinum. Og, virðulegi forseti, ég reyni að bera nafnið fram, hann heitir Sin-hua eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) — Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerir athugasemd við kínversku þess sem hér talar og ég biðst aftur forláts á framburði mínum. En ég held að það sé ekki gott. Þó að það sé gott að eiga öflugt stórveldi sem vinaþjóð, og við erum ekkert að ræða það hér, skulum við samt sem áður ekki líta á Kína sem fyrirmynd.

Virðulegi forseti. Í þessari stuttu ræðu eru skilaboð mín einföld: Við þurfum að einfalda þetta mál verulega. Ég held að sú stutta umræða sem hér hefur farið fram sýni okkur fram á það. Þegar þetta er komið úr nefndinni sé þetta skoðað og við þurfum að skoða — eiginlega ekkert að skoða, við erum eiginlega að komast á framkvæmdastig. Við þurfum að taka saman þessi mál sem snúa að heimilunum sem eru í ýmsum nefndum þingsins, setja þau saman á einn stað og taka þetta mál þar inn í og hafa það einfalt. Ef pólitíski viljinn er sá að ekki eigi að skattleggja einstaklinga og hjón sem fá eftirgjöf skulda út af hruninu eigum við bara að segja það og þá þurfum við ekki að ræða það neitt frekar. Það er (Forseti hringir.) miklu betri lausn og einfaldar lífið, að ekki sé talað um umræðuna.