Staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 15:17:33 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:17]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Íslenski hrossastofninn og atvinna honum tengd er ein af auðlindum okkar og sú auðlind okkar er nú bundin í fjötra vondrar lítt þekktrar pestar. Þessi vaxandi atvinnugrein er eins og í þyrnirósarsvefni, tamningar, útreiðar, járningar, reiðkennsla og sala á hestum liggja nánast niðri og takmarkaðar tekjur koma því inn í greinina á tíma sem átti að vera sérstakur blómatími vegna fyrirhugaðs Landsmóts hestamanna í Skagafirði í sumar þar sem íþróttamenn á öllum aldri og ræktunarmenn kynbótagripa ætluðu að sýna hestaáhugamönnum, íslenskum og erlendum, afurðir þrotlausrar vinnu sinnar undanfarin ár. Von var á þúsundum erlendra ferðamanna á landsmót með tilheyrandi tekjuöflun fyrir ferðaþjónustu og hestafólk. Ljóst er að við frestun landsmótsins er tjón þessara aðila verulegt og eðlilegt að stjórnvöld komi að þessum náttúruhamförum hestamennskunnar á Íslandi með einhverjum hætti.

Ég talaði við nokkra hrossabændur í gær og fannst þeir bera sig kappalega í raunum sínum, enda eru þeir ekki vanir öðru en að þurfa að treysta á sjálfa sig, því að opinber framlög til þessarar greinar eru í algjöru lágmarki. Það sem mér fannst ég lesa úr orðum þeirra er ósk um þríþætt liðsinni. Í fyrsta lagi þarf að rannsaka pestina betur og finna á grundvelli þeirra rannsókna hvernig best verður brugðist við henni, frekari útbreiðslu hennar og endurtekningu. Síðan þarf að styðja við landsmótið sjálft sem stendur nú uppi með fjárfestingar sem ekki munu skila neinum arði fyrr en að ári liðnu. Hugsanlega má nota þar einhverja blandaða leið láns og styrks. Síðast en ekki síst þarf að fara í öflugt markaðsátak til að efla á ný markaði fyrir íslenska hestinn og hestatengda þjónustu erlendis þegar við höfum náð valdi á pestinni.

Mér finnst þessar hugmyndir hrossabænda hógværar og skynsamlegar og styð þær eindregið og vona að ríkisstjórnin geri það líka. Með því skerum við hratt og örugglega á fjötra greinarinnar.