Staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 15:26:00 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum hér er alvarlegt mál, grafalvarlegt mál, því að við erum að tala um áhrif þessarar pestar sem teygja sig í raun út um allt land og um allt samfélagið, á ýmsa þætti, bæði hvað varðar atvinnuvegi og einnig og ekki síst tómstundir og annað. Ég veit ekki hvort menn gera sér alveg grein fyrir hversu mörg störf eru í hestamennsku ef við horfum bara á störfin. Gerð hefur verið úttekt á því að bara í Skagafirði þar sem búa 4.300 manns er talið að á milli 80 og 100 störf eða ársverk séu tengd hestamennsku. Ef þetta er fært, hv. þingmenn og virðulegi forseti, yfir á landið, getum við hugsað okkur hversu gríðarlega margir hafa í raun atvinnu af hestamennsku eða málefnum tengdum henni.

Ferðaþjónustan er þáttur sem við öll þekkjum og er gríðarlega vinsæl. Hestamennskan sem slík veltir hundruðum milljóna eða milljörðum í íslensku samfélagi. Það er mjög mikilvægt að við höfum það í huga þegar við ræðum þessi stóru mál.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að stjórnvöld finni leiðir til að koma að þessu, bæði til að reyna að ráða bug á því að þetta endurtaki sig eða koma í veg fyrir aðrar pestir berist hingað. Við verðum að standa vörð um búfjárstofnana á Íslandi með öllum þeim ráðum sem við mögulega getum. Síðast en ekki síst verða stjórnvöld að leita leiða til að gera þeim sem halda uppi landsmótum og öðru sem er gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnugreinina sem slíka, fyrir sölu, fyrir ræktun, mögulegt að halda áfram hinum glæsilegu landsmótum og öðru sem tengist atvinnugreininni og einnig tómstundum. Jafnvel þó að sum okkar sem hér stöndum séum ekki í hestamennsku eða förum sjaldan á hestbak, höfum við gríðarlega gaman af því að horfa á þessar fögru skepnur og þekkjum marga sem hafa tekjur af því að rækta, (Forseti hringir.) selja, þjálfa, vinna með fötluðum, vinna með unglingum og börnum í þessari grein. Þetta er mikilvægt mál.