Staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 15:30:41 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu, þau innlegg, þær ábendingar og hvatningu sem hv. þingmenn hafa komið með um það alvarlega mál sem þessi hrossapest er. Ég tek undir þær áherslur sem komu fram, m.a. hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, um að menn eigi að huga að því hvernig betur megi tryggja upplýsingar fyrir þá sem eru að ferðast um á milli landa eða koma inn í landið og sporna þannig gegn því að smit komist inn í landið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að allir sem koma inn í landið séu meðvitaðir um þessa hættu, ekki bara varðandi hrossapestina heldur fleira. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að farið verði ofan í alla ferla varðandi þetta eftirlit og ábendingar og upplýsingagjöf í þeim efnum og hvort þar sé hægt að gera betur.

Af hálfu stjórnvalda, eins og ég gat um áðan, hefur verið tekið á málinu og það sett í farveg. Skipaður var vinnuhópur ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta, landbúnaðar- og sjávarútvegs-, menntamála- og iðnaðarráðuneyta. Hann hefur síðan unnið að áætlun um hvað þurfi að gera, bæði hvað varðar rannsóknir og viðbrögð og sóttvarnir. Ég tek alveg undir með m.a. hv. þm. Atla Gíslasyni um sóttvarnaáætlun sem þarf að vera til staðar. Ég legg þó áherslu á að ég tel að allir aðilar sem hér eiga hlut að máli hafi samt brugðist vel og rétt við. Það var ekki ljóst hversu mikið umfang þessarar veiki var, en ég tel að bæði hestamenn og hrossaeigendur, dýralæknisembættið og eftirlitsaðilar hafi samt brugðist vel við. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að horfa á þetta sem viðfangsefni til að takast á við. Við skulum líka gæta þess að hafa ekki um þetta of stór orð þannig (Forseti hringir.) að þetta skaði ekki ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar sem við getum vonandi haldið úti í sumar (Forseti hringir.) þrátt fyrir þessa veiki og þrátt fyrir þann skaða sem hefur orðið. (Forseti hringir.) Öll þau mál eru í skoðun.