Erfðabreyttar lífverur

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 20:59:32 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

erfðabreyttar lífverur.

516. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér rétt aðeins til þess að gera athugasemd við upphafsorð nefndarálits minni hluta hv. umhverfisnefndar þar sem minni hlutinn mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og vísar til fyrstu afgreiðslu nefndarinnar frá 4. júní. Málið var ekki afgreitt úr hv. umhverfisnefnd fyrr en 14. júní og máli er ekki lokið fyrr en því er lokið.

Ég mótmæli því að nefndin hafi ekki gert tilraunir til að upplýsa með fullnægjandi hætti eða afla frekari gagna vegna afgreiðslu þessa máls. Þvert á móti var töluvert á sig lagt til þess. Hv. þingmaður sat sjálfur fundinn þar sem formaður gerði könnun á því meðal nefndarmanna hvort vilji væri fyrir því að taka málið út og sá vilji reyndist vera fyrir hendi hjá meiri hluta nefndarinnar. Síðan tók formaður það beinlínis að sér að vinna málið betur með þeim breytingum sem síðan hafa orðið á þessu frumvarpi og málsmeðferð þess.

Þingmaðurinn vísar í það að þingmenn hafi á eigin vegum farið í gagnaöflun til þess að upplýsa málið frekar, það er vissulega rétt. Ég geri þá kröfu til allra nefndarmanna í öllum nefndum þingsins að þeir fari í sjálfstæða gagnaöflun vegna þeirra mála sem verið er að taka út úr nefndum. En auk þess lagði nefndin á sig töluvert starf við að afla gagna.

Síðan vil ég minna á það að hv. þm. Birgir Ármannsson var sjálfur á nefndaráliti vegna þessa máls á 137. þingi en það er nákvæmlega í þeim búningi sem málið var lagt á borð umhverfisnefndar að þessu sinni. Mér finnst því athyglisvert hversu ósáttur hann er við upplýsingaöflun og þann tíma sem farið hefur í að ræða þetta frumvarp í ljósi þess að hann tók þátt í umfjöllun þess allt þingið þar á undan og var á nefndarálitinu sem (Forseti hringir.) lagði drög að frumvarpinu eins og það var lagt fyrir nefndina núna.