Erfðabreyttar lífverur

Þriðjudaginn 15. júní 2010, kl. 21:22:17 (0)


138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

yerfðabreyttar lífverur.

516. mál
[21:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Eins og fyrri ræðumenn hafa komið inn á fjallar það um umgengni við erfðabreyttar lífverur og möguleika á að nýta þær í ýmsu skyni á Íslandi. Ekki síst fjallar frumvarpið um möguleika á nýsköpun sem hefur orðið hjá hátæknifyrirtækjum, og um það ætla ég aðallega að ræða, að geta framleitt prótein, til að mynda úr íslensku byggi sem ræktað er á Íslandi. Það eru auðvitað fleiri möguleikar og fleiri fyrirtæki sem gætu komið hér við sögu. Ég get nefnt fyrirtækið ORF sem hefur staðið býsna vel að þessu og hefur í langan tíma þróað rannsóknir og vörur á þessu sviði og náð býsna góðum árangri. Það er nú þegar komið með vörur á markað sem eftir hefur verið tekið, m.a. hér innan lands, á gráa svæðinu milli snyrtivara og heilsuvara.

Það sem ég óttast, og kem þess vegna hér upp til að ræða það, eru þær hugmyndir sem koma fram í frumvarpinu og gera það að verkum að þessu fyrirtæki sem og öðrum sambærilegum sem vinna á þessum markaði er gert erfiðara fyrir. Nóg er nú samt því að auðvitað snýst þetta líka um samkeppnisstöðu við önnur ríki, fyrst og fremst Evrópuríki. Við þurfum að skoða hvaða möguleika við veitum íslenskum fyrirtækjum sem og hvaða möguleika við erum að opna á.

Það sem er jákvætt í frumvarpinu og ég vil gjarnan ítreka og taka undir eru nokkrir þættir sem snerta upplýsingagjöf til almennings. Einnig er skilgreint nákvæmar hvernig slíkar auglýsingar og tilkynningar eiga að fara fram, þ.e. eins og fram kemur í II. kafla um meginþætti frumvarpsins, „um upplýsingagjöf til almennings og rétt almennings til að gera athugasemdir vegna fram kominna umsókna um að setja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær á markað“. Fjallað er einnig um að nauðsynlegt sé að fræða almenning um þær ráðstafanir sem gerðar eru við framkvæmd Evróputilskipunarinnar um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið.

Eins og fram hefur komið er lagt til að Umhverfisstofnun sem hefur samkvæmt lögunum yfirumsjón með framkvæmd þeirra, beri skylda til að kynna fyrir almenningi útdrátt úr umsókn sem henni berst um að setja erfðabreyttar lífverur eða vöru sem inniheldur þær á markað. Almenningur hefur þá ákveðinn rétt til að bera fram athugasemdir sem síðan er fjallað um og stofnuninni ber jafnframt að veita almenningi aðgang að svokölluðum matsskýrslum. Það er búið að tryggja með ákveðnum hætti aðgang almennings að þessu máli.

Frumvarpið kveður reyndar líka á um trúnaðarskyldu Umhverfisstofnunar og umsagnaraðila um upplýsingar sem skaðað gætu samkeppnisstöðu umsækjanda. Vissar upplýsingar er þó óheimilt að fara með sem trúnaðarmál og eru þær tilgreindar sérstaklega í frumvarpinu.

Einnig er nánar fjallað um það í frumvarpinu með hvaða hætti nákvæmari málsmeðferð skuli vera með umsóknum og leyfisveitingum til sleppingar eða markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum eða vörum sem innihalda þær.

Annað atriði, fyrir utan skýrari og betri almannarétt, kemur fram í I. kafla frumvarpsins og er áréttað í meirihlutaáliti hv. umhverfisnefndar. Þar er fjallað um að tekið sé sérstakt mið af varúðarreglunni en eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er varúðarreglan meginregla í umhverfisrétti. Hún er m.a. eins og stendur á bls. 5 í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er m.a. að finna í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Hún felur í sér að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.“

Ég vil árétta að ekkert megum við gera ef einhver óvissa er um afleiðingar þess í náttúrunni. Náttúran skal auðvitað njóta vafans.

Eins og oft áður þegar við tökum upp Evróputilskipanir er okkur gefinn ákveðinn frestur til að fjalla um þær. Ef ég man rétt er nokkuð um liðið frá því að lágmarksfrestur rann út til að fjalla um þessa tilskipun. Það var ákvörðun hinnar sameiginlegu EES-nefndar að þetta yrði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hinn 28. september 2007. Hefðbundinn sex mánaða frestur Íslands til að innleiða tilskipunina í íslenska löggjöf rann því út 28. mars 2008. Það er því ekki eins og við séum að fara einn mánuð fram yfir og í því ljósi er rétt að velta því upp hvort það geri svo mikið til ef við mundum fara betur yfir málið, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans. Þá mætti líka velta því upp hvort menn trúi því að öll Evrópusambandsríki eins og Grikkland, Ítalía eða Rúmenía séu búin að innleiða allar þessar tilskipanir og við séum einasta landið í heiminum sem eigum það eftir. Það væri að minnsta kosti áhugavert að skoða það.

Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta að upplýst hafi verið að væntanleg sé skýrsla frá Evrópusambandinu um mat á reynslu aðildarlandanna af umræddri tilskipun og kostir hennar og gallar metnir. Þess vegna væri skynsamlegt að við mundum ekki flýta okkur um of í þessu máli. Það kemur líka fram í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir afgreiðslu meiri hlutans á frumvarpi þessu og telur að athugun málsins og umræðu innan nefndarinnar hafi alls ekki verið lokið með viðhlítandi hætti. Málið var fyrst afgreitt frá nefndinni í miklum flýti og þótt málið hafi síðar verið tekið aftur til skoðunar er mörgum spurningum enn ósvarað og fyrir hendi ýmis álitaefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.“

Síðan er fjallað um það að verulega skiptar skoðanir eru um frumvarpið og forsendurnar sem það byggist á og það má einnig ráða af umsögnum og orðum gesta nefndarinnar. Eins höfum við heyrt það hér í ræðustól, ef til vill ekki í kvöld en þegar málið hefur fyrr verið rætt.

Þess vegna væri skynsamlegt að við gæfum okkur örlítið meiri tíma til að vanda til verka. Það er þannig með Evróputilskipanir að þær veita aðildarríkjunum yfirleitt nokkurt svigrúm þótt mismunandi sé í einstökum málum við útfærslu einstakra ákvæða. Það ættum við að tileinka okkur. Því þurfum við að velta fyrir okkur hvaða ákvæði henta íslenskum aðstæðum best en ekki taka Evróputilskipanirnar upp óbreyttar, eins og menn kannski gerðu á fjármálamarkaði með ekki svo góðum árangri.

Um hvað snýst þetta? Hvaða mikilvægi er það sem ég nefndi að ég vildi ræða? Jú, víða um heim hafa menn notfært sér að hægt er að fara inn í erfðaefni plantna með prótein úr dýraríkinu sem hægt er síðan að nota í lyf og snyrtivörur til að mynda og ýmsan iðnað, ensímiðnað. Það er hægt að klippa inn í erfðaefni plantnanna upplýsingar sem gera það að verkum að plantan framleiðir þessi efni sem eru mjög dýrmæt. Þau hafa verið framleidd á annan veg hingað til en með þessum hætti er bæði hægt að framleiða mun betri efni og hreinni, líkari því sem menn sækjast eftir, og á miklu ódýrari hátt þar sem plöntur eru miklu ódýrari í framleiðslu en til að mynda dýrafrumur eða að vinna þetta á tilraunastofum.

Þetta hefur sem sagt tekist með bærilegum árangri. Víða erlendis hefur þetta þó verið gert í plöntum eins og maís eða öðrum sem eru ekki einærar í þeim löndum, þ.e. þær geta farið út í náttúruna og fjölgað sér á náttúrulegan hátt. Þannig hefur komist óorð á, þetta geti farið út í náttúruna og smitað yfir í náttúrulegan maís eða aðrar þær plöntur sem hafa verið notaðar. Það er allsendis óásættanlegt og ég tel að við getum aldrei leyft það. Það þarf því að skoða hvaða hluti við mundum nota í þetta verkefni.

Íslenska fyrirtækið ORF hefur komist langt með að þróa þetta í íslensku byggi. Byggið hefur þar fyrir utan þann eiginleika að það lifir ekki af íslenskan vetur og getur þar af leiðandi ekki sáð sér sjálft. Það þarf að sá til þess á hverju ári með sérstökum hætti. Líkurnar á því að erfðabreytt korn með innskotnum próteinkeðjum eða erfðaefni fari út í náttúruna eru þar af leiðandi engar eða í það minnsta hverfandi. Það þarf að fara yfir það hvort ekki sé hægt að tryggja að líkurnar séu engar.

Byggið hefur verið ræktað í gróðurhúsum með ágætum árangri og þannig hefur verið hægt að sýna fram á að tæknin virkar og möguleikarnir eru fyrir hendi að framleiða vörur sem ganga á markaði. Það hefur jafnframt verið prófað í tilraunareitum svo þetta er hægt líka úti í náttúrunni. Menn hafa síðan skoðað hvort hægt væri að gera þetta í stórum stíl. Víða á landinu háttar þannig til að hægt væri að nota akra sem ekki eru notaðir til matvælaframleiðslu til að rækta erfðabreytt bygg. Þeir yrðu í varúðarskyni auðvitað hafðir sér og ekki í nánum tengslum við hina akrana sem eru notaðir til matvælaframleiðslu. Eins og ég sagði áðan er hættan hverfandi eða engin þar sem íslenskt korn getur ekki lifað af veturinn.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að hér gæti verið um að ræða umtalsverða ræktun á tugum ef ekki hundruðum hektara. Þá hættum við fljótlega að tala um milljónir króna eða hundruð milljóna og gætum talað um milljarða. Eitt af því sem menn hafa stefnt að í atvinnusköpun í landinu er að efla fjölbreytnina, efla nýsköpunina, efla hátækniiðnaðinn, þar á meðal þennan lífræna iðnað. Ég held að það væri mjög varhugavert af okkur ef við gengum á einhverjum tímapunkti lengra en til að mynda Norður-Evrópuríkin gera. Sérstaklega þegar við munum eftir að hér er ekki um að ræða plöntur sem geta farið út í náttúruna af sjálfsdáðum heldur þarf að sá til þeirra á hverju ári.

Það mætti jafnframt skoða hvort hægt væri að nota afganginn sem verður til fyrir utan kornið sjálft, þ.e. hálminn. Hann mætti nota m.a. til að framleiða í verksmiðjum etanól sem hægt er að blanda í bensín, allt að 15%. Það gætum við síðan nýtt til að spara gjaldeyri og til að minnka útblástur á koltvísýringi. Þannig getur margt jákvætt skapast af þessu og mörg hliðarverkefni. Við slíka framleiðslu er þar fyrir utan hægt að framleiða alls kyns aðrar aukavörur sem menn hafa verið að skoða hjá ýmsum fyrirtækjum eins og Íslenska lífmassafélaginu og fleiri fyrirtækjum sem vinna á þessu sviði .

Það skiptir máli að það sem við gerum á þinginu í málum sem þessu trufli ekki eða hindri hreinlega vöxt þessara fyrirtækja. Eins og ég sagði upphaflega megum við að sjálfsögðu heldur ekki gera neitt sem raskar ró okkar um að náttúran njóti vafans. Eins er rétt að almannarétturinn sem ég nefndi líka í inngangi mínum sé virtur

Við gætum sem sagt verið að tala um stórfelldan iðnað á þessu sviði og stóraukna tekjumöguleika þeirra sem eiga aðgang að landi eða nýta land, eiga ábúðarrétt á landi, og þar með gætum við verið að styrkja byggð um stærstan hluta landsins. Staðreyndin er sú að hægt er að rækta bygg víðast hvar á landinu þó að ekkert megi bregða út af í veðráttu til þess. Það er einmitt eitt af því, svo ég ítreki það enn frekar, sem gerir það að verkum að hér á landi er einn extra þröskuldur umfram það sem menn hafa verið að skoða annars staðar.

Það hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að meiri hlutinn hefur fallið frá hugmyndum sem voru settar fram um sérstaka veggi og slíkt sem auk þess voru óskilgreindir. Við erum þannig kannski smátt og smátt að nálgast það sem við þurfum að gera í þessu máli. Við erum að fullgilda Evróputilskipun um umgengni um erfðabreyttar lífverur en við verðum jafnframt að muna að við erum líka að fjalla um fyrirtæki sem á næstu árum og áratugum eru kannski líkleg til að bera upp vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi. Vonandi verður þetta eitt í þeirri fjölbreyttu flóru sem við getum nýtt okkur við að nýta náttúruauðlindir okkar.

Eins og ég hef nefnt þá kemur fram í minnihlutaálitinu í síðasta kafla að minni hlutinn leggur á það áherslu að íslenskum stjórnvöldum og Alþingi beri að skapa sem hagstæðust skilyrði fyrir nýsköpun og uppbyggingu rannsókna og þróunar í atvinnulífinu eins og stendur hér, með leyfi forseta, „sem getur skilað ótvíræðum ávinningi fyrir þjóðarbúið“. Ég vil kannski ganga lengra og fullyrða að það geti ekki bara heldur muni skila ótvíræðum ávinningi fyrir þjóðarbúið og er nú þegar farið að gera það.

Minni hlutinn undirstrikar jafnframt, eins og ég hef gert í ræðu minni, að það sé tekið nægilegt tillit til umhverfissjónarmiða og hagsmuna annarra eins og til að mynda almennings og viðurkennd sé nauðsyn þess að löggjafinn og stjórnvöld veiti eðlilegt aðhald til að tryggja að slíkt markmið náist.

Að lokum, svo ég vitni beint til umsagnar minni hlutans, með leyfi forseta:

„Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar felur í sér breytingar sem geta haft hamlandi áhrif umfram það sem nauðsynlegt er, og getur minni hlutinn því ekki stutt það nema fram fari nánari athugun á efni þess og ýmsar breytingar verði gerðar umfram þær sem finna má í áliti og breytingartillögum meiri hlutans.“

Þessi lokaorð ætla ég að gera að mínum og hvetja stjórnarmeirihlutann eða meiri hluta umhverfisnefndar til að vera tilbúinn að taka málið hreinlega til baka og fara (Forseti hringir.) betur yfir þetta. Ég held að við gætum gert þennan aðbúnað enn tryggari og enn betri. Ekki síst ættum við að bíða eftir skýrslu Evrópusambandsins sem væntanleg er innan mánaðar þar sem fram kemur mat á reynslu annarra landa af umræddri tilskipun.