138. löggjafarþing — 142. fundur,  16. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[01:22]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um stjórnlagaþing sem í rauninni hefur tekið slíkum stakkaskiptum í meðförum nefndarinnar að það er nærri að ástæða væri til þess að breyta um nafn á frumvarpinu en nafnið er í raun það eina sem eftir stendur í frumvarpinu og hefur ekki verið breytt. Þetta er orðið frumvarp til laga um endurskoðun stjórnarskrárinnar með margvíslegum hætti.

Það hefur að mörgu leyti verið ákaflega ánægjulegt samstarf sem við höfum átt í allsherjarnefnd um þetta mál. Frá því að vera með fjórar eða fimm mjög ólíkar skoðanir á málinu höfum við nálgast mikið hvert annað þótt skoðanir nefndarmanna á hverjum þætti málsins séu ólíkar. Það ber að sjálfsögðu með sér að um málamiðlun er að ræða en eins og þetta mál er vaxið og til þess stofnað er það að mínu mati til mikilla bóta vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt fyrir Alþingi og fyrir þjóðina að um þetta ferli allt sé eins mikil og breið samstaða og nokkur kostur er.

Ég vil gera grein fyrir málinu hér í nokkrum orðum án þess að ég fari að lesa upp allt nefndarálitið, þeim meginbreytingum sem orðið hafa á þessu frumvarpi. Nefni ég þá fyrst hinn svokallaða þjóðfund sem ákveðið hefur verið að efna til í þessu ferli. Hugmyndin er sú að með nokkurs konar slembiúrtaki af landinu öllu af kjörgengum einstaklingum eða fólki með kosningarrétt og sem er búsett á landinu verði efnt til þjóðfundar í svipuðum dúr og haldinn var í Laugardalshöll á síðasta ári þar sem fjallað var um framtíðarsýn og megingildi þjóðarinnar og landsins og horft á hlutina í svolítið víðu samhengi í ljósi þeirra atburða sem eru undangengnir í okkar samfélagi.

Reynslan af þeim þjóðfundi var afar góð og var ákveðið að reyna að endurskapa þá samfélagstilraun sem þar fór fram undir nafninu „Mauraþúfan“. Er það skoðun nefndarinnar að æskilegt væri að slíkur fundur mundi standa samfellt í nokkra daga, t.d. þrjá, til þess að hann verði markvissari og að fram komi tillögur sem nýtast sem grunnur að vinnu stjórnlagaþings, sem ég mun koma að síðar í máli mínu.

Í aðdraganda þjóðfundarins fer fram vinna svokallaðrar stjórnlaganefndar sem skipuð verður eða kosin af þinginu á morgun en allsherjarnefnd kom sér saman um tillögu að þeirri nefnd og verður hún kynnt hér í fyrramálið. Það er hlutverk þessarar nefndar að undirbúa og standa að þessum fyrrnefnda þjóðfundi um stjórnarskrármálefni. Þetta á að vera hópur sem tekur saman það sem skrifað hefur verið um stjórnarskrártengd málefni, hópur fólks sem hefur komið að þessum málaflokki með einum eða öðrum hætti og hefur það hlutverk að leggja e.t.v. fram þær spurningar sem æskilegt er að okkar mati að þjóðfundurinn svari. Þegar þjóðfundinum sleppir er það svo hlutverk nefndarinnar að taka saman þá vinnu og undirbúa áfram í nokkurs konar tillögugerð eða hugmyndaformi til stjórnlagaþings sem kosið verður til ekki seinna en í endaðan nóvember næsta haust. Samhliða þessari stjórnlaganefnd verður skipuð sérstök undirbúningsnefnd sem fer með framkvæmdahluta verkefnisins alls. Það kemur að vinnu stjórnlaganefndarinnar, þjóðfundinum og stjórnlagaþinginu.

Nefndin fjallaði nokkuð um kjörgengið til stjórnlagaþings vegna þess að búið var að gera ráð fyrir því í frumvarpsdrögunum að forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar væru ekki kjörgengir. Með tilkomu stjórnlaganefndarinnar var fjallað sérstaklega um hvort meðlimir hennar ættu að vera kjörgengir til stjórnlagaþingsins en það varð niðurstaða allsherjarnefndar að svo ætti ekki að vera. Það sama gildir í rauninni um þá sem skipaðir eru í undirbúningsnefndina, þeir geta ekki boðið sig fram til stjórnlagaþings enda eru þeir hugsaðir sem nokkurs konar starfsmenn stjórnlagaþingsins jafnframt og ættu því ekki heldur að vera þar kjörnir fulltrúar.

Lagt er til að sett verði 2 millj. kr. þak á kostnað frambjóðenda í kosningum til stjórnlagaþings til þess að tryggja að þetta verði ekki kosningabarátta í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur verði þetta hófstillt, enda er gert ráð fyrir því að kjörstjórn sjái að einhverju leyti um kynningu og að gefið verði út sameiginlegt kynningarefni þar sem fjallað er um frambjóðendur.

Með þessum breytingum sem orðið hafa á frumvarpinu, þ.e. með stjórnlaganefndinni og þjóðfundinum, er starfstími stjórnlagaþings styttur niður í tvo mánuði. Er vísað þar til aukins og bætts undirbúning og starfar stjórnlagaþingið því í einni lotu í tvo mánuði samkvæmt breytingartillögu sem þegar hefur verið samþykkt í nefndinni. Miðað er við að stjórnlagaþingið komi saman um miðjan febrúar á næsta ári, starfi í tvo mánuði og geti að þeim tíma loknum óskað eftir því að tíminn verði framlengdur um tvo mánuði í stað þriggja eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Nokkuð var fjallað um aukna aðkomu almennings að ferlinu öllu, þ.e. þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Það var niðurstaða okkar í allsherjarnefnd að best færi á því að stjórnlagaþingið sjálft mundi kveða upp úr um hvenær atkvæðagreiðsla ætti að fara fram um stjórnarskrárdrögin. Nokkrar hugmyndir hafa verið ræddar í því sambandi: Í fyrsta lagi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að stjórnlagaþingið hefur lokið vinnu sinni og áður en drögin eru send til Alþingis verði kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á meðan eða eftir að Alþingi hefur fjallað um drögin í fyrstu hendingu fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla og Alþingi taki síðan drögin aftur til sín og staðfesti þau, þing rofið og næsta þing staðfesti stjórnarskrána eða þá að atkvæðagreiðsla um stjórnarskrárdrögin fari fram samhliða alþingiskosningum í millitíðinni. Jafnframt er bent á þá leið að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti farið fram eftir að þing númer tvö, þ.e. Alþingi eftir kosningar, hefur fjallað um drögin, þá staðfesti þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu stjórnarskrána. Þessir kostir eru nefndir sem möguleikar og nefndin er þeirrar skoðunar að skoða þurfi betur kosti og galla þessara leiða enda er ekkert sem knýr á um að tekin sé afstaða til þeirra við afgreiðslu þessa frumvarps.

Ég vil að endingu geta þess að við óskuðum eftir því í nefndinni við fjármálaráðuneytið að tekinn yrði saman sá kostnaður sem af þessu ferli öllu mundi hljótast og endurreiknaður miðað við breyttar forsendur. Við gáfum fjármálaráðuneytinu í sjálfu sér ekki mikinn tíma til þess að vinna þá vinnu en miðað við gróflegt mat fjármálaráðuneytisins verður kostnaðurinn um 390–480 millj. kr. og má ætla að þar af fari um 230 millj. kr. í kosningarnar sjálfar. Það hefur því orðið nokkur sparnaður af þessum breytingum þrátt fyrir að ferlið sé orðið nokkuð lengra. En áður var, miðað við þann langa starfstíma sem þinginu var ætlaður, talið að kostnaðurinn yrði um 500 milljónir. Tel ég að þar hafi verið um nokkra vanáætlun að ræða en það er fyrst og fremst byggt á tilfinningu minni fyrir því starfi sem fram undan var. Hér hefur kostnaðurinn því dregist að einhverju leyti saman af þessu ferli öllu saman án þess að ég vilji gera það að einhverju aðalatriði hér.

Ég vil að endingu ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í allsherjarnefnd fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í þetta mál vegna þess að hún hefur verið verulega umfangsmikil og er óhætt að fullyrða að ekkert mál hefur tekið jafnmikinn tíma hjá nefndinni og þetta á undanförnum mánuðum. Ber málið það með sér. Það er orðið virkilega þroskað og ég skynja það jafnframt í umræðunni að veruleg ánægja er með hvernig til hefur tekist hjá allsherjarnefnd í þessu máli og eiga þar allir nefndarmenn heiður skilinn.