Stjórnarráð Íslands

Miðvikudaginn 16. júní 2010, kl. 12:12:11 (0)


138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samanburðinn við hagræðingaraðgerðir fyrri ríkisstjórnar vil ég bara draga fram það sem augljóst er. Þegar þingið kom að málum var það skýrt innrammað hvaða verkefni væri um að ræða, hvert þau áttu að fara og hvað var skilið eftir. Þannig var það. Málið var tilbúið til afgreiðslu þegar það kom til þingsins, hugmyndirnar voru útfærðar.

Hér er algjörlega óútfært mál. Það er svipað og frumvarpið um Varnarmálastofnun, það er ýmislegt hægt að gera, við viljum fá opna heimild frá þinginu til þess að gera eitthvað. Margt má laga. Hægt er að ná fram hagræðingu og gera skipulagsbreytingar. Hver getur verið á móti því að efla stjórnsýsluna?

Við hér á Alþingi veitum ekki svona opnar heimildir. Við viljum fá útfærðar tillögur sem við getum tekið afstöðu til. Allt tal um forræði þingsins á málinu er auðvitað ekkert nema innantómir frasar. Þetta eru algjörlega merkingarlausir frasar. Forræði þingsins á málinu, um hvað snýst þetta mál? Það snýst um að breyta heitum á nokkrum ráðuneytum. Í kjölfarið á að nýta sér lagabreytingu til þess að gera umfangsmiklar kerfisbreytingar á stjórnsýslunni.

Málið er ekki á forræði þingsins, það er ekki byggt upp þannig. Það er ekki hægt að tala um þetta frumvarp eins og það sé einhver hvítbók sem er til umfjöllunar. Það er verið að óska eftir lagaheimild til þess að fara í heildarendurskoðun og endurskipulagningu á stjórnsýslunni og uppstokkun ráðuneyta og tilfærslu verkefna. Að svo miklu leyti sem málið snýst um forræði þingsins er það auðvitað á forræði þess að segja já eða nei. Annars þarf að vinna málið algjörlega frá grunni.