Hæstaréttardómar um myntkörfulán

Miðvikudaginn 16. júní 2010, kl. 17:03:29 (0)


138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

fundarstjórn.

[17:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir hugmynd hv. þm. Atla Gíslasonar um hversu mikilvægt það er að okkur hér á þinginu sé gert kleift að meta áhrif þessara tveggja hæstaréttardóma sem allra fyrst. Það hefur ekki bara áhrif á málið sem hér hefur verið í vinnslu í félagsmálanefnd og snertir mögulegar afskriftir þeirra samninga sem eru undir í þessum tveimur dómsmálum, þ.e. sambærilegra samninga og hafa verið undir í þessum dómsmálum, heldur einnig um það hversu víðtæk áhrif dómarnir geta haft vegna þeirra mála sem hér eru í vinnslu og varða sérstaklega skuldavanda heimilanna. Þetta er afar brýnt. Ég tek undir með hv. þingmanni um að skýrsla frá viðskiptaráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra gæti orðið að gagni. Það þarf líka að gera ráð fyrir því að nefndir þingsins hafi tækifæri til að (Forseti hringir.) fara ofan í saumana á þessum málum, en sem betur fer gáfum við okkur næstu viku til þess að fara nánar ofan í málin og vonandi dugar sá tími.